Krefja LÍÚ um kjarasamning strax

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í gærkvöldi. Að venju var fundurinn málefnalegur og góður. Auk venjulegra aðalfundarstarfa urðu miklar umræður um kjaramál sjómanna, starfsmenntamál, sjómannafsláttinn, viðbótarálögur á útgerðina og framkomu LÍÚ í garð sjómanna sem hafa verið samningslausir í tvö ár.Fundurinn taldi fulla ástæðu til að álykta um málið enda framkoma útgerðarmanna í garð sjómanna varðandi kjaramálin þeim ekki til sóma. 

Á fundinum var Jakob Gunnar Hjaltalín kjörinn formaður deildarinnar. Aðrir í stjórn verða: Kristján Þorvarðarson, Stefán Hallgrímsson, Haukur Hauksson og Björn Viðar. Hér má sjá skýrslu stjórnar um starfsemi deildarinnar á liðnu starfsári og ályktun fundarins. Þá fylgja með ályktanir 28. þings Sjómannasambands Íslands. 

 Ályktun
Um kjaramál sjómanna

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á LÍÚ að láta af boðuðum hugmyndum um lækkun á kjörum sjómanna sem fram koma í tillögum þeirra sem lagðar hafa verið fram.  Þá undrast aðalfundurinn hótanir LÍÚ um verkbann á sjómenn til að knýja á um að þeir taki þátt í auknum sköttum á útgerðina.

Aðalfundurinn hvetur LÍÚ til að ganga þegar í stað til viðræðna við Samtök sjómanna um gerð kjarasamnings fyrir sjómenn sem hafa verið samningslausir í tvö ár. Slík staða er óásættanleg með öllu og á ekki að líðast að mati aðalfundar Sjómannadeildar Framsýnar.“

Aðalfundir Sjómannadeildar Framsýnar eru alltaf líflegir og fjörugir. Fundurinn í gær stóð yfir í fjóra tíma. Með þessari frétt koma nokkrar myndir frá fundinum en fundarsóknin var góð. 

Ársskýrsla stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar

Kæru sjómenn!

Ég vil fyrir  hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska fundarmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.  Að venju komum við saman til fundar í lok árs til að gera upp starfsárið sem er að líða.  Alls voru 100 sjómenn skráðir í deildina árið 2012, það eru starfandi sjómenn og þeir sjómenn sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku.

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Stefán Hallgrímsson varaformaður,  Kristján Þorvarðarson ritari og í varastjórn voru Björn Viðar og Haukur Hauksson.  

Stjórnin hélt tvo formlega stjórnarfundi á árinu. Formaður deildarinnar situr auk þess í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á árinu sem er að líða.

28. þing Sjómannasambands Íslands var haldið í Reykjavík 29. -30. nóvember 2012. Formaður deildarinnar var fulltrúi á þinginu. Mörg mál voru á dagskrá þingsins s.s. kjaramál og þá ályktaði þingið um nokkur mál. Ályktanirnar eru meðfylgjandi þessari skýrslu.

Samkvæmt samkomulagi sá Sjómannadeildin um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Árið 2012 voru sjómennirnir Guðmundur A. Hólmgeirsson og Hreiðar Olgeirsson heiðraðir fyrir sjómennsku en þeir voru einnig útgerðarmenn til fjölda ára.

Sjómannadeildin tók á móti félögum úr Sjómannafélagi Eyjafjarðar 26. október sl. En þá komu fulltrúar frá nokkrum stéttarfélögum við Eyjafjörð í heimsókn til Framsýnar og Þingiðnar. Þar á meðal stjórnarmenn úr Sjómannafélagi Eyjafjarðar. Þeir fengu kynningu á starfsemi Framsýnar auk þess sem þeim var gefinn kostur á að skoða Sjóminjasafnið á Húsavík.

Kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og LÍÚ hefur nú verið laus frá 31. desember 2010 sem er gjörsamlega óþolandi staða. Á tímabilinu hefur þó verið samið um ákveðnar launahækkanir til sjómanna svo kauptryggingin haldi í við önnur laun hjá öðrum launþegum.

Á þessari stundu er ekki vitað hvort eða hvenær samningar takast milli aðila. LÍÚ hefur lagt fram langan lista með kröfum um skerðingar á kjörum sjómanna. Eðlilega eru sjómannasamtökin ekki tilbúin að samþykkja það. Í ljósi mála telur sjómannadeildin mikilvægt að fundurinn álykti um stöðuna og komi sínum skilaboðum þannig á framfæri. Það er vissulega óásættanlegt að ekki sé búið að ganga frá kjarasamningi fyrir hönd sjómanna.

 Mikil vinna skilar oft árangri. Sjómannadeild Framsýnar hefur lengi barist fyrir því að gerður verði kjarasamningur um kjör sjómanna á smábátum. Það tókst á árinu, því þann 31. ágúst 2012 var skrifað undir kjarasamning milli félagsins og Landssambands smábátaeigenda. Formaður félagsins og Haukur Hauksson skrifuðu undir samninginn fyrir hönd deildarinnar í Karphúsinu en áður hafði deilunni verið vísað til Ríkissáttasemjara.

Kjarasamningurinn var samþykktur í atkvæðagreiðslu. Á kjörskrá voru 34, atkvæði greiddu 17 eða 50% félagsmanna. Já sögðu 15 eða 88% og nei sögðu 2 eða 12%. Samningurinn var  því samþykktur af sjómönnum á félagssvæði deildarinnar sem er Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn.

Sjómannadeildin hefur einnig átt í viðræðum við forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík. Væntingar voru um að viðræður aðila enduðu með kjarasamningi. Því miður gekk það ekki eftir. Hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík, GG-Hvalaferðir og Norðursigling hafa nú falið Samtökum atvinnulífsins umboð til að halda viðræðum áfram við deildina um samning. Haldinn var einn fundur í Reykjavík í desember og annar er fyrirhugaður í byrjun næsta árs. Vonandi verður ástæða til að fagna samningi við fyrirtækin á næsta ári.

Sjómannadeildin minnir sjómenn reglulega á Sjómennt. Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Það er von okkar að þessi sjóður verði vel nýttur jafnt af útgerðarfyrirtækjum sem og sjómönnum sjálfum. Þeir sem vilja fræðast frekar um sjóðinn er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar.

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi, reyndar er einn af þeim í 90% starfi  og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn.

Þá er ánægjulegt að segja frá því að Starfsgreinasamband Íslands tók út rekstur aðildarfélaga sambandsins á þessu ári. Niðurstaðan fyrir Framsýn er glæsileg. Félagið er fjárhagslega sterkt, reyndar stendur félagið best allra félaga innan sambandsins. Jafnframt er félagið með virkustu heiðasíðu stéttarfélags innan Alþýðusambands Íslands og rekstur skrifstofunnar er einn sá lægsti meðal sambærilegra stéttarfélaga sem er afar athyglisvert í ljósi starfseminnar sem er ein  sú öflugasta innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. Full ástæða er til að nefna þetta hér þar sem það skiptir verulega miklu máli fyrir félagsmenn að fá upplýsingar um rekstur og starfsemi félagsins á hverjum tíma.

Að lokum langar mig að geta þess að Framsýn réð ungan mann í tímabundið verkefni. Starfsmanninum er ætlað er að fara um félagssvæðið og mynda félagsmenn við störf. Myndbandið verður síðan notað til kynningar á starfsemi félagsins í skólum og vinnustöðum. Vissulega áhugavert verkefni sem ekki hefur verið gert áður á Íslandi svo vitað sé.

Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að þið séuð nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is sem er mjög virk og flytur nánast daglegar fréttir af starfsemi félagsins svo ekki sé talað um Fréttabréf stéttarfélaganna sem reglulega er gefið út.

Í lokin vil ég þakka meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári.

Jakob Gunnar Hjaltalín

 Að sjálfsögðu var boðið upp á kaffi og konfekt á fundinum. Hér er Gunnar Sævars að fá sér sopa.

 Börkur er greinilega hugsi yfir stöðunni. Reyndar Matthías Leifsson líka.

Brynjar er alltaf rólegur og yfirvegaður. Hér er hann að skoða ályktun fundarins um kjaramál. Bjarki er hins vegar brúnaþungur.

Félagarnir, Kristján og Aðalgeir á fundinum en þeir eru á sama skipi. Aðalgeir Sigurgeirsson sem býr á Akureyri kom keyrandi frá Akureyri gær ásamt góðum aðstoðarökumanni vopnaður skóflu ef hann þyrfti að moka sig yfir Víkurskarðið á heimleiðinni eftir fundinn sem kláraðist um miðnættið.

Ályktanir 28. þings Sjómannasambands Íslands 29. – 30. nóv. 2012.

28. þing Sjómannasambands Íslands ítrekar enn og aftur mótmæli sín varðandi aðför stjórnvalda að sjómönnum með afnámi sjómannaafsláttarins. Það er á ábyrgð stjórnvalda að  kjör sjómanna skerðist ekki þó ákvörðun sé tekin um það á hinum pólitíska vettvangi að kostnaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna. 28. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld dragi skerðinguna nú þegar til baka og noti hluta veiðigjaldanna sem innheimt eru af útgerðinni til að fjármagna kostnaðinn. 

28. þing Sjómannasambands Íslands vísar á bug kröfu LÍÚ um verulega lækkun launa vegna veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðar.  Þingið harmar hótanir um verkbann á sjómenn til að knýja á um að þeir taki þátt í sköttum á útgerðina. Veiðigjöldin eru skattur á útgerðina sem stjórnvöld kjósa að leggja á hagnað hennar.  

28. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að Alþingi Íslendinga sjái til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Eins og reglurnar eru í dag getur kaupandi og seljandi fisks verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið í eigin viðskiptum og lækkar þar með laun sjómanna. Að mati þingsins getur þetta verðmyndunarkerfi ekki gengið lengur og því nauðsynlegt að setja reglur sem skylda útgerðina til að selja allan afla, sem fer til vinnslu innanlands, á uppboðsmarkaði fyrir sjávarfang. 

28. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði veiðiskylda aukin verulega eða frjálst framsal aflamarks afnumið. Samhliða verði sett lög um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu. 

28. þing Sjómannasambands Íslands leggur til við stjórnvöld að ýmsar ívilnanir í lögunum um stjórn fiskveiða verði afnumdar, svo sem línuívilnun, VS afli og byggðakvóti. 

28. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til Hafrannsóknastofnunarinnar. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er því nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið og kanna áhrif umhverfisbreytinganna á  fiskistofna við Ísland. 

28. þing Sjómannasambands Íslands hvetur áhafnir skipa og stjórnendur útgerða til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð eins og lög og reglur mæla fyrir um. 

28. þing Sjómannasambands Íslands  hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Jafnframt hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntunarsjóð eins og aðrir atvinnurekendur. 

28. þing Sjómannasambands Íslands beinir þeim tilmælum til Slysavarnarskóla sjómanna að taka upp samstarf við slysavarnardeildir, slökkvilið og stéttarfélög sjómanna víðs vegar um landið um að koma á endurmenntunarnámskeiðum í heimabyggð. Jafnframt þakkar þingið Slysavarnarskóla sjómanna fyrir frábært starf að slysavörnum og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki. 

28. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega þeirri tilhneigingu sumra útgerðarmanna að fækka í áhöfn á kostnað öryggis skipverja. 

28. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld tryggi Landhelgisgæslu Íslands nægt rekstrarfé á hverjum tíma. Sérstaklega á þetta við um rekstur þyrlusveitarinnar. Lífsspursmál er fyrir íslensku þjóðina að þyrlur séu til staðar  þegar slys eða veikindi ber að höndum eins og dæmin sanna. 

28. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld samræmi reglur um vinnuaðstöðu sjómanna til jafns við reglur um vinnustaði í landi, t.d. um loft- og neysluvatnsgæði og hávaða á vinnustað. 

28. þing Sjómannasambands Íslands skorar á innanríkisráðherra að hefja nú þegar útgáfu á nýjum persónuskilríkjum (sjóferðarbókum) fyrir sjómenn í samræmi við samþykktir ILO. Dæmi eru um að íslenskum sjómönnum hafi verið synjað um landgönguleyfi erlendis vegna þess að rétt skírteini eru ekki fyrir hendi.  

28. þing Sjómannasambands Íslands fagnar því að tekist hafi að gera kjarasamning milli samtaka sjómanna og Landssambands smábátaeigenda þannig að lágmarkskjör séu nú í gildi fyrir smábátasjómenn.

Hluti fundarmanna er hér að fara yfir skýslu stjórnar en starf deildarinnar var öflugt á síðasta ári.

 

 

 

 

 

 

Deila á