Það voru þrír fjallmyndarlegir jólasveinar sem komu í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag. Það voru þeir Hurðaskellir, Skyrgámur og Þvörusleikir en heimili þeirra er í Dimmuborgum í Mývatnssveit. Þeir sögðust hafa verið á ferðinni síðustu daga og komið víða við, sérstaklega væri ánægjulegt að koma á jólatréskemmtanir þar sem væri yfirleit fullt af góðum og þægum börnum. Þeir vildu koma því á framfæri að börnin væru búin að vera til fyrirmyndar í desember og flestir því fengið eitthvað fallegt í skóinn. Alþingismennirnir mætu hins vegar haga sér betur, meðan þeir gerðu það ekki, fengju þeir bara kartöflur í skóinn og svo hlógu þeir tröllahlátri áður en þeir yfirgáfu skrifstofuna og héldu á jólatréskemmtun í Borgarhólsskóla á Húsavík.
Íslensku jólasveinarnir eru að sjálfsögðu félagsmenn í Framsýn. Þeir voru ánægðir með myndina sem hangir á skrifstofu félagsins sem tekin var þegar þeir gengu í félagið fyrir hundruðum ára. Þá tóku þeir einnig með sér Fréttabréf stéttarfélaganna sem þeir ætluðu að færa Grýlu gömlu sem er víst með slæma gigt þessa dagana.
Það urðu miklir fagnaðarfundir með jólasveinunum og formanni Framsýnar þegar jólasveinarnir komu í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna eftir hádegið í dag. Til að fyrirbyggja misskilning þá er jólasveininn sá sem er með skeggið.
Hvað er þetta maður, viltu ekki smakka þvöruna hjá mér!!!!!!
Jólasveinarnir þáðu veitingar í boði starfsfólksins um leið og þeir sögðu því margar góðar jólasveinasögur. Þá tóku þeir einnig lagið og sungu eins og heimsins bestu söngvarar enda búa þeir í bestu tónlistarhöll veraldar, það er í Dimmuborgum.
Þessi formaður ykkar er nú algjör Jólasveinn!!!!