Nýr góður liðsmaður í sérverkefni

Framsýn hefur ráðið Rafnar Orra Gunnarsson í tímabundið verkefni. Rafnar er 24 ára gamall og ættaður frá Húsavík. Honum er ætlað að fara um þingeyjarsýslur og mynda atvinnulífið á svæðinu og efla auk þess tengsl Framsýnar við unga félagsmenn en rúmlega 500 félagsmenn eru innan við 25 ára aldur. Hugmyndin er síðan að búa til kynningarmyndband um atvinnulífið og starfsemi Framsýnar á félagssvæðinu sem nær frá Raufarhöfn að Vaðlaheiði. Lesnar verða upplýsingar inn á myndbandið á íslensku, ensku og pólsku þar sem ætlunin er að myndbandið verði mjög fræðandi fyrir félagsmenn Framsýnar og aðra áhugasama um starfsemi félagsins og atvinnulífið í Þingeyjarsýslum.  Auk þess verður búið til sérstakt kynningamyndband í sömu mynd fyrir ungt fólk á vinnumarkaði sem ætlað er til kennslu og fróðleiks í skólum. Myndböndin verða aðgengileg á heimasíðu Framsýnar. Ekki er vitað til þess að stéttarfélög á Íslandi hafi ráðist í svona verkefni áður.  Ljóst er að önnur stéttarfélög munu fylgjast með verkefninu en þegar hafa nokkur félög beðið um að fá að fylgjast með framvindu mála sem er hið besta mál enda Framsýn þekkt fyrir sitt öfluga starf innan hreyfingarinnar.

Rafnar Orri, myndar og myndar. Hér er hann í Fjallalambi að taka upp félagsmenn Framsýnar við störf.

Það er ekki bara að Rafnar Orri heimsæki unga félagsmenn Framsýnar heldur þá eldri líka. Hér er hann ásamt frænku sinni sem hann rakst á þegar hann heimsótti vinnustaði á Kópaskeri fyrir helgina.

Deila á