Í gær var haldið fjölmennt málþing á Raufarhöfn um innkomu listamanna í fámenn samfélög. Tæplega fimmtíu manns mættu á fróðlegt og skemmtilegt málþing þar sem eftirtaldir fluttu erindi.
Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri í Norðurþingi setti ráðstefnuna og bauð gesti velkomna.
Frummælendur á málþinginu voru, Katrínar Jakobsdóttur ráðherra menningar og menntamála og í máli hennar kom fram að skapandi greinar velta milljörðum á ári hverju á Íslandi og einnig kom fram hjá henni að áhugi og vilji að styðja við bakið á frumkvöðlastarfi heima í héraði.
Kolbrún Halldórsdóttir forseti Bandalags íslenskra listamanna var ánægð með að hafa verið boðið á þetta málþing og sagði Bandalagið tilbúið til frekara samstarfs við heimamenn.
Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður og einn af eigendum gamla Kaupfélagins á Raufarhöfn, flutti því næst áhugaverða tölu um tækifærin sem fælust í svæðinu og kom með margar tillögur að lausnum.
Snorri Freyr Hilmarsson leiksviðshönnuður og einn af eigendum Óskarsstöðvarinnar á Raufarhöfn lýsti aðkomu hans að húsinu og sýndi myndir frá uppbyggingu þess ásamt því að sýna myndasýningu víðs vegar að úr heiminum þar sem hnignun hefur átt sér stað.
Að afloknu kaffihléi flutti Þórunn Eymundardóttir myndlistamaður og íbúi á Seyðisfirði fróðlegan lestur um þá þróun sem átt hefur sér stað þar á bæ. Fjöldi listamanna hefur flutt eða hefur afdrep til lengri eða skemmri dvalar á Seyðisfirði og hefur það breytt bæjarbragnum verulega til góðs að hennar mati.
Ragnheiður Jóna Ingimundardóttir menningarfulltrúi Eyþings kynnti að lokum verkefni sem Menningarráð Eyþings og fleiri standa fyrir þar sem í boði verða styrkir til burt fluttra ungra listamanna til að koma og skapa eða sýna verk sín á svæðinu.
Jakob S. Jónsson leikstjóri óskaði eftir því að ávarpa málþingið og þakkaði öllum fyrir frábær erindi og brýndi menn til dáða.
Erlingur Thoroddsen hótelstjóri og frumkvöðull flutti svo lokaorð og sleit málþinginu.
Fundarstjóri var Friðrik Sigurðsson, bóksali og bæjarfulltrúi í Norðurþingi.
Að þinginu afloknu héldu gestir að Heimskautsgerðinu sem nú er í byggingu og gerði ráðherra góðan róm af því starfi sem þar hefði verið unnið.
Mjög góð þátttaka var á málþinginu í gær. (Gunnar Jóhannesson tók myndirnar með þessari frétt)