Lumumba drykkja kostaði pólska verkamenn starfið í Árósum

Nær 20 pólskir verkamenn í Árósum í Danmörku fóru flatt á því að drekka Lumumba með tveimur fulltrúum frá verkalýðsfélaginu 3F.

Pólsku verkamennirnir komu á fund með tveimur fulltrúum frá verkalýðsfélaginu á vinnustað sínum við Norðurhöfnina í Árósum. Þeim var boðið upp á Lumumba og í lok fundarins gerðust þeir allir meðlimir verkalýðsfélagsins. Það kostaði þá starfið daginn eftir og flugmiða aðra leið heim til Póllands. Lumumba er heitur að kaldur súkkulaðidrykkur sem blandaður er með töluverðu magni af koníaki.

Í frétt um málið í Avisen segir að þessir verkamenn hafi starfað á vegum Budomex sem er pólskur undirverktaki hjá Phil & Sön við umfangsmiklar framkvæmdir í Norðurhöfninni. Budomex hefur áður komist í sviðsljós fjölmiðla í Danmörku og er þekkt þar í landi fyrir að svína á starfsmönnum sínum.

Talsmaður Budomex segir það slúður að verkamennirnir hafi verið reknir vegna þess að þeir skráðu sig í verkalýðsfélagið en skýrir málið ekki frekar.

Budomax var fyrr í ár afhjúpað fyrir að hafa staðið að mestu undirmálslaunum í sögu Árósa, það er undirverktakinn var staðinn að því að borga verkamönnum sínum laun sem voru langt undir lágmarkslaunum í Danmörku. (Heimild visir.is). Til viðbótar má geta þess að 3F eru systursamtök Starfsgreinasambands Íslands.

Deila á