Ánægðir með samstarfið – skimun fyrir ristilkrabbameini

Lionsklúbbur Húsavíkur og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga stóðu í dag fyrir kynningarfundi með styrktaraðilum sem komu að því að styrkja fimm ára verkefni á þeirra vegum er varðar skimun  fyrir ristilkrabbameini í körlum og konum á þjónustusvæði HÞ. Heilbrigðisstofnunin hefur séð um skipulagninguna og framkvæmd speglunar en Lionsklúbburinn hefur verið fjárhagslegur bakhjarl verkefnisins. Á Íslandi greinast að meðaltali 112 einstaklingar með  krabbamein í ristli. Miklu skiptir að greina krabbameinið á byrjunarstigi. Því miður er ekki hafin almenn skimun fyrir ristilkrabbameini á Íslandi þrátt fyrir umræðu þess efnis. Þess vegna ekki síst er samstarf Lionsklúbbs Húsavíkur og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga afar athyglisvert og á sér ekki hliðstæðu á Íslandi.

Verkefnið fellst í því að bjóða öllum konum og körlum á aldrinum 55 ára í ókeypis ristilskoðun á því ári sem þau ná þessum aldri. Hægt er að bjóða upp á fría skoðun þar sem nokkur sveitarfélög, tryggingafélög, fjármálastofnanir og stéttarfélög styrkja verkefnið fjárhagslega. Í því sambandi má geta þess að öll stéttarfélögin sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna koma að verkefninu með fjárframlögum.

Eftir fimm ár stendur svo til að meta árangurinn og ákveða framhaldið. Í máli Lionsmanna kom fram að þeir hefðu viljað starta þessu mikilvæga verkefni með það að markmiði að eftir árin fimm væri það komið til að vera.

Ásgeir Böðvarsson læknir og Ingunn Indriðadóttir hjúkrunarfræðingur fóru yfir verkefnið og helstu niðurstöður. Alls voru 65 einstaklingar boðaðir í rannsókn en um 69% þeirra svöruðu kallinu eða 46 einstaklingar, af þeim fóru 42 í skimun fyrir ristilkrabbameini. Fram kom hjá samstarfsaðilum að verkefnið hefði gengið vel og þátttakendur hefðu almennt verið ánægðir með framtakið sem þegar hefði sannað sig.

 Ásgeir læknir fór vel yfir verkefnið og svaraði fjölmörgum spuringum frá gestum fundarins.

Halldór Kristinsson er greinilega hugsi á þessari mynd en hann er félagi í Lionsklúbbi Húsavíkur sem á heiður skilið fyrir verkefnið er varðar skimun  fyrir ristilkrabbameini í körlum og konum á þjónustusvæði HÞ. Verkefnið er unnið í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Eins og sjá má og lesa var kynningin í dag bæði í fyrirlestraraformi og eins í myndrænuformi.

Það voru margir góðir gestir á kynningunni í dag. Guðbjartur, Hafþór og Bergþór fara hér yfir málin.

Deila á