Samstöðu og styrktartónleikar fyrir bændur í Hofi

Fjöldi listamanna kemur fram á tónleikum í Hofi á sunnudag Samstöðu og styrktartónleikar fyrir þá bændur sem verst urðu úti í nýliðnum hamförum. Miðasala í fullum gangi á menningarhus.is Fjöldi listamanna mun koma fram á sérstökum samstöðu og styrktartónleikum í menningarhúsinu Hofi á Akureyri, sunnudaginn 18. nóvember næstkomandi, kl. 16.00.

 Allur ágóði tónleikanna mun renna í styrktarsöfnun sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur. Söfnunin er fyrir þá bændur sem urðu fyrir áföllum í óveðrinu er gekk yfir Norðurland í september síðastliðnum. „Þótt tónleikarnir séu af alvarlegu tilefni er ekki síður ástæða til þess að hittast og fagna saman“ segir Guðni Ágústsson, einn af forvígismönnum söfnunarinnar. „Söfnunin hefur gengið vel en betur má ef duga skal. Tónleikarnir verða hátíðlegir, Forseti Íslands mun flytja ávarp og fjöldi stórkostlegra listamanna mun gleðja okkur og snerta streng í hörpu allra þeirra sem á munu hlýða. Ég hvet fólk til þess að tryggja sér miða hið fyrsta.“ Á tónleikunum koma fram þau Kristján Jóhannsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Valgerður Guðrún Guðnadóttir, Gissur Páll Gissurarson, Jón Svavar Jósefsson, Unnur Helga Möller, Hörn Hrafnsdóttir, Rósalind Gísladóttir, Guðrún Dalía Salómonsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir. Allir listamenn gefa vinnu sína til stuðnings verkefninu. Heiðursgestir tónleikann eru forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorritt Moussaieff. Forsetinn mun flytja ávarp við þetta tækifæri. Miðasala fer fram í Hofi í síma 450 1000 eða á vefsíðunni menningarhus.is. Aðgagnseyrir er 3.000 kr. Þeir sem vilja leggja bændum lið er auk þess bent á söfnunarreikning nr. 0161-15-380370, kt. 630885-1409, í Landsbankanum á Sauðárkróki. Nánari upplýsingar veitir: Guðni Ágústsson gudni.ag@simnet.is sími: 891 9049.

Rétt er að skora á fólk að fjölmenna í Hof næsta sunnudag.

Deila á