Hvað gengur miðstjórn ASÍ til?

Stéttarfélagið Framsýn hefur lengi gengið eftir því að fá fundargerðir miðstjórnar Alþýðusambands Íslands afhendar enda miðstjórnin eitt æðsta valdið í verkalýðshreyfingunni. Því miður er lýðræðið ekki meira en svo innan Alþýðusambandsins að ekki er talin ástæða til að upplýsa aðildarfélög sambandsins um umræðuna innan miðstjórnar á hverjum tíma. Hins vegar eru fulltrúar þeirra stéttarfélaga/sambanda sem sitja í miðstjórn alltaf vel upplýstir um gang mála og hafa því verulegt forskot á þá sem ekki sitja í miðstjórn á hverjum tíma. Þetta er talið afar eðlilegt af þeim sem sitja í miðstjórn. Þetta er lýðræðið í hnotskurn innan sambandsins. Framsýn hefur fengið þau svör þegar óskað hefur verið eftir skýringum, af hverju fundargerðirnar séu ekki aðgengilegar, að miðstjórn sé svo oft að fjalla um trúnaðarmál sem varða vinnumarkaðinn sem ekki sé hægt að gera opinberrar.

Eftir að hafa komist yfir fundargerð síðasta miðstjórnarfundar með klækjum er greinilegt að töluvert er lagt upp úr því að rífa niður forystumenn innan aðildarfélaga sambandsins. Það stéttarfélag sem vann sína heimavinnu hvað best fyrir þingið var án efa Verkalýðsfélag Akraness sem lagði fram þrjár metnaðarfullar tillögur á þinginu. Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, var mjög áberandi á þinginu og á heiður skilið fyrir sitt framlag. Vissulega er það eðlilegt að skiptar skoðanir séu með framlagaðar tillögur á þinginu, hvort heldur þær koma frá miðstjórn ASÍ eða einstökum aðildarfélögum sambandsins. Að sjálfsögðu kallar það á lýðræðislegar umræður um málið og niðurstöðu á þinginu.  Hvernig skyldi nú miðstjórn ASÍ hafa fjallað um tillögur Verkalýðsfélags Akraness sem lagði mikla áherslu á að koma með vel undirbúnar tillögur á þingið eftir mikla vinnu innan félagsins. Sjá umfjöllun úr fundargerð Alþýðusambands Íslands:

„Gangrýnt var að ákveðinn aðili hefði nánast tekið þingið í gíslingu með endalausum og síendurteknum ræðuhöldum sem tekið hefðu upp mikinn tíma, tafið þingstörfin og haft áhrif á möguleika annarra til að tjá sig. Þá hefði framganga viðkomandi einkennst af hroka og ókurteisi í garð þingforseta og annarra þingfulltrúa. Í því sambandi varð nokkur umræða um lýðræði á samkomum eins og þingum ASÍ hversu langt ætti leyfa einum eða fáum einstaklingum að sýna þingstjórnendum og fulltrúum vanvirðingu með því að virða ekki tímamörk og almennar fundarreglur. Einnig kom fram að slík framganga væri ekki til þess fallin að auka virðingu þingfulltrúa eða stuðning við málflutning viðkomandi“.

Þrátt fyrir að það komi ekki skýrt fram í fundargerðinni að hér sé átt við formann Verkalýðsfélags Akraness er það ekki spurning. Rétt er að skora á þá sem lesa þennan pistil að meta það hvort þetta séu eðlileg vinnubrögð eða ekki. Þarna er greinilega varað við eðlilegu tjáningarfrelsi. Í ljósi fundargerðar miðstjórnar hlýtur að teljast eðlilegt að umræðan á þinginu verði gerð aðgengileg fyrir hinn almenna félagsmann Alþýðusambands Íslands sem ekki hafði aðgengi að þinginu sem þingfulltrúi. Það hlýtur að teljast eðlilegt að þeir verði upplýstir um svokallaða „valdníðslu“ formanns Verkalýðsfélags Akraness á þinginu eða er það ekki?

Þá er annað mjög merkilegt. Miðstjórn skýtur föstum skotum varðandi fundarstjórn þingsins. Þingforseti var Ásgerður Pálsdóttir formaður Samstöðu í Húnavatnssýslu. Ekki var annað að heyra á þinginu en að þingfulltrúar væru almennt ánægðir með hennar störf. Miðstjórn ASÍ er greinilega ekki á sömu skoðun. Samkvæmt frétt um málið á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness kannast  hún á engan hátt við það að formaður Verkalýðsfélags Akraness hafi sýnt henni hroka eða vanvirðingu á þinginu og segir að hann hafi virt allar reglur og þau fundarsköp sem voru í gildi á ársfundi ASÍ og vísaði á bug því sem fram kæmi í fundargerð miðstjórnar og snerti þetta mál.

 Er að undra að íslensk verkalýðshreyfing eigi erfitt uppdráttar þegar vinnubrögð miðstjórnar ASÍ eru með þessum hætti. Þá er alveg ljóst að ef fundargerðir miðstjórnar væru aðgengilegar fyrir aðildarfélög sambandsins hefði aldrei verið bókað í fundargerð með þeim hætti sem gert var í tilfelli formanns Verkalýðsfélags Akraness. Nú er að sjá hvort miðstjórn ASÍ biður hlutaðeigandi aðila afsökunar sem hlýtur að teljast mjög eðlilegt og temur sér framvegis betri vinnubrögð. Hins vegar eru væntanlega mjög litlar líkur á því að miðstjórn telji ástæðu til þess frekar en þegar forseti sambandsins skrifaði niðrandi orð um störf formanns Framsýnar og póstaði þeim á alla formenn aðildarfélaga sambandsins og deilda innan stéttarfélaganna þar sem hann hafði ekki sömu skoðanir á málefnum verkalýðshreyfingarinnar og forseti ASÍ. Svona er því miður verkalýðshreyfingin í dag. Er ekki löngu orðið tímabært að þeir sem öllu stjórna hlusti eftir skoðunum alþýðunnar í landinu og fylgi þeim eftir í stað þess að loka sig inn í glerhúsi?

 

Miðstjórn ASÍ fer ekki fögrum orðum um framlag formanns Verkalýðsfélags Akraness á þingi sambandsins í fundargerð frá 24. október. Kjörorð þingsins var; „Byggjum réttlátt þjóðfélag.“ Það er merkilegt að rifja þetta upp í ljósi fundargerðar miðstjórnar ASÍ. Þar eru ekki uppbyggileg skrif um störf formanns Verkalýðsfélags Akraness.

Sjá einnig frétt um málið inn á http://www.dv.is/frettir/2012/11/12/vilhjalmur-midstjorn-asi-grenjar-lokudum-fundum/

Deila á