Verkalýðsfélag Þórshafnar styrkir lestrarátak í grunnskólanum

Góður bókakostur er ein forsenda þess að viðhalda lestraráhuga hjá börnum og unglingum og góð lestrarfærni er undirstaða alls náms. Verkalýðsfélag Þórshafnar brást því vel við beiðni bókavarðarins á Þórshöfn þegar hann leitaði liðsinnis Verkalýðsfélagsins og bað um styrk til bókakaupa. Rausnarlegt framlag félagsins var 80.000 krónur, sem nemur um eitt þúsund krónum á hvern nemanda í grunnskólanum. Lestrarátak hófst í skólanum í haust og því eru nýjar bækur afar kærkomin viðbót og bókavörður færði Verkalýðsfélaginu alúðarþakkir við móttöku styrksins.

Svala Sævarsdóttir og Kristín Kristjánsdóttir hjá VÞ afhentu bókaverði styrkinn í bókasafninu. Bókavörðurinn sem tók við gjöfinni er Líney Sigurðardóttir en hún tók jafnframt  myndina og er því ekki á myndinni.

Deila á