Ferðaþjónustan í Vogafjósi hefur vaxið og dafnað allt frá því að fjölskyldan að Vogum fór fyrst að bjóða gestum að skoða fjósið, en þess má geta að jörðin er búin að vera í eigu sömu fjölskyldunnar kynslóð eftir kynslóð í um 120 ár. Í dag rekur fjölskyldan gistiheimili með 26 vel útbúnum herbergjum með baði, veitingahús og sveitaverslun í fallegu umhverfi við Mývatn.
Það er mat starfsfólks Ferðaþjónustu bænda að rekstraraðilarnir þau Ólöf Þ. Hallgrímsdóttir, Jón Reynir Sigurjónsson, Leifur Hallgrímsson og Gunnhildur Stefánsdóttir leggja mikinn metnað í að vanda til verka hvort sem um er að ræða þjónustu við gesti, metnað í matargerð eða fallegt umhverfið með sína fjölbreyttu möguleika til afþreyingar. Þá hefur þessi vinna skilað sér í ánægðum gestum eins og umsagnir viðskiptavina gefa til kynna.