Ályktun um svarta atvinnustarfsemi og félagsleg undirboð samþykkt á þingi ASÍ

Að gefnu tilefni tók Framsýn upp málefni á þingi ASÍ er varðar kennitöluflakk, svarta atvinnustarfsemi og innflutning á ódýru vinnuafli undir því yfirskini að starfsmenn séu að koma til landsins í sjálfboðastarf. Félagið taldi einnig ástæðu til að vara við þeirri þróun að skrá íslensk fiskiskip og kaupskip undir hentifánum erlendis. Þingið samþykkti samhljóða að álykta um málið og er hún hér meðfylgjandi:

 Ályktun 40. þings ASÍ um svarta atvinnustarfsemi og félagsleg undirboð

40. þing ASÍ lýsir miklum áhyggjum yfir aukinni svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki, m.a. í ferðaþjónustu, garðyrkjurækt, ýmiskonar persónulegri þjónustu og byggingariðnaði. Fyrirtæki og einstaklingar sem taka þátt í slíku valda alvarlegum og víðtækum skaða fyrir samfélagið, atvinnulífið og réttindi launafólks. Þingið lýsir jafnframt yfir þungum áhyggjum sínum yfir misnotkun á mikilvægum réttindum launafólks í atvinnuleysisbótakerfinu í þessu sambandi.

40. þing ASÍ telur afar mikilvægt að verkalýðshreyfingin, samtök atvinnurekenda og stjórnvöld sameinist um að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi og kennitöluflakk, m.a. þar sem þeir sem standa að slíkri refsiverðri starfsemi verð dregnir til ábyrgðar og beittir þungum viðurlögum.

40. þing ASÍ telur mikilvægt að unnið verði gegn þeirri þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum að fyrirtæki í samkeppnisrekstri komi sér undan þeim kjarasamningum, réttindum og skyldum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði með því að skrá fiskiskip og farskip undir hentifánum erlendis eða flytja hér inn vinnuafl undir yfirskyni sjálfboðavinnu og áhugamennsku. Þingið telur mikilvægt að Alþýðusambandið hafi frumkvæði að samstarfi aðildarfélaganna til að uppræta þessa tegund félagslegra undirboða.

Fulltrúar Framsýnar, Þingiðnar, Verkalýðsfélags Þórshafnar og Grindavíkur við þingstörf á þingi Alþýðusambandsins sem fram fór í síðustu viku.

Deila á