Matarverð er á uppleið

Verð á kjöti, fiski og mjólkurvörum hækkar milli ára og nemur hækkunin allt að tugum prósenta. Svínakótelettur hafa hækkað um 27% á einu ári og rækja um 21%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands en þær sýna að verðið hefur í mörgum tilfellum hækkað langt umfram verðlagsþróun.  Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags, segir marga eiga erfitt með framfærslu. „Því er reglulega haldið fram að láglaunafólk eigi fyrir verðhækkunum enda hafi kaupmátturinn aukist. Þetta er bara falskt. Launin eru í mörgum tilfellum svo lág að sífellt fleiri ráða ekki við hækkanirnar.“ 

Þrýstingur á verkalýðsfélögin
Hann segir vaxandi þrýsting á verkalýðshreyfinguna vegna þessa. „Reglulega kemur til okkar fólk og spyr hvort verkalýðshreyfingin ætli ekki að fara að vekja athygli á þessum hækkunum. Ofan á þær bætist að flutningskostnaður hefur hækkað og það ýtir undir vöruverð á landsbyggðinni sem var hátt fyrir.“ Björn Snæbjörnsson, formaður stéttarfélagsins Einingar-Iðju, segir umsaminn kaupmátt í kjarasamningum hafa gengið eftir en að verðhækkanir hafi slegið á áhrifin.  

Vegur á móti kjarasamningum
„Verðlagið hefur hækkað meira en margir áttu von á. Mánaðarkaupið endist verr. Margir eiga erfitt með að láta enda ná saman.“ Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, segir verð á aðföngum til bænda hafa hækkað.

Dæmi um hækkanir
» Kílóverðið á kindabjúgum var 674 krónur í ágúst í fyrra en var 725 kr. í ágúst sl.
» Hækkunin er um 8%.
» Kílóverð á skinku hefur hækkað úr 2.683 krónum í 2.820 krónur eða um 5%.
» Þá kostar lítri af kókómjólk 7% meira en í fyrra.

(Heimild, Morgunblaðið)

Deila á