Hinn landsþekkti Hrútadagur var haldinn hátíðlegur á Raufarhöfn síðasta laugardag. Að venju lagði fjöldi fólks leið sína til Raufarhafnar til að skoða og jafnvel kaupa verðlaunahrúta. Sá besti fór á kr. 85.000,-. Markaðsverð á góðum hrút er um 27 þúsund. Reyndar voru menn á því að töluvert færri hefðu komið á hrútadaginn í ár miðað við síðustu ár. Helsta ástæðan fyrir því er væntanlega sú að bændur hafa notað síðustu daga til að fjárleita og því ekki haft tíma til að fara á hrútadaginn. Það var ekki bara að boðnir væru upp lifandi hrútar heldur voru einnig í boði manngerðir hrútar eftir listakonuna Aðalheiði S. Eysteinsdóttir. Þá var boðið upp á sögurölt um Raufarhöfn og Heimskautagerðið. Afhjúpað var listaverk við Óskarsstöðina til heiðurs síldarstúlkunum sem söltuðu síldar á síldarárunum á Raufarhöfn. Erlingur bauð upp á hlaðborð á Hótel Norðurljósum og hagyrðingar fóru á kostum um kvöldið í Félagsheimlinu Hnitbjörgum. Góður dagur endaði svo með hörku balli í félagsheimilinu þar sem Dansbandið frá Akureyri hélt uppi gargandi stuði fram eftir nóttu.
Það er alltaf töluverð stemning þegar bestu hrútarnir eru boðnir upp.
Þetta er alveg magnaður hrútur! Bergur Elías sveitarstjóri Norðuþings skoðar hrút á Hrútadeginum á Raufarhöfn.
Siggi Þórs sem ættaður er frá Húsavík og Steingrímur J. Sigfússon ráðherra voru á staðnum enda báðir áhugamenn um sauðfé.
Þessi hrútur var boðinn upp á staðnum. Ekki er vitað hvort hann seldist.
Hópur fólks lagði leið sína á Hrútadaginn á Raufarhöfn sem fór vel fram.
Skúli stórbóndi Ragnarsson frá Ytra Álandi í Þistilfirði lætur ekki Hrútadaginn fram hjá sér fara.
Hrútadagurinn dregur til sín fullt af góðu fólki sem kemur víða að. Hér er Agnes J.M. Lebeaupin frá Frakklandi að fá sér íslenska kjötsúpu.