ASÍ og BSRB, heildarsamtök stéttarfélaga á vinnumarkaði, hafa tekið höndum saman um sameiginlega fræðslu fyrir starfsfólk sitt og stjórnir með það fyrir augum að mæta breyttum tímum, nýjum áherslum og viðameiri verkefnum. Til að mæta auknum kröfum sem gerðar eru til forystu og starfsfólks innan samtakanna hefur verið búin til námsleiðin Forystufræðsla fyrir stjórnir og starfsfólk stéttarfélaga. Aðildarfélögin gegna margþættu hlutverki við að bæta hag og verja hagsmuni félagsmanna. Ljóst er að þjónusta stéttarfélaganna er í örri þróun og því brýnt að koma til móts við auknar kröfur og flóknari verkefni með samhæfðu fræðsluátaki. Með Forystufræðslunni er markmiðið að miðla, ræða og þróa áfram þekkingu og aðferðir innan samtakanna og efla um leið fagmennsku og lýðræðisleg vinnubrögð. Fræðslunni er jafnframt ætlað að efla liðsheild, efla samstöðu, greiða fyrir flæði upplýsinga innan heildarsamtakanna BSRB og ASÍ og aðildarfélaga þeirra.
Forystufræðslan er heildstæð námsleið sem skiptist í 9 námsþemu með 30 námskeiðum sem spanna alls 192 klukkustundir. Ýmist verða í boði styttri námskeið eða stærri námslotur sem byggðar verða upp í kringum skyld viðfangsefni. Námskeiðin eru valfrjáls og geta þátttakendur ýmist tekið styttri námskeið eða stærri námslotur eftir því hvaða störfum er sinnt eða hvaða hæfni þarf að styrkja.
Boðið verður uppá nokkur námskeið á hverju misseri, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Jafnframt er stefnt að því að bjóða upp á fjarnám þegar kostur er. Sameiginlegur stýrihópur samtakanna stýrir verkefninu en umsjón er í höndum Félagsmálaskóla alþýðu og Fræðslusetursins Starfsmenntar.
Nánari upplýsingar má fá á www.felagsmalaskoli.is og www.smennt.is
Samningurinn undirritaður, Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.