Stjórnarfundur BSRB hefur samþykkt ályktun þar sem því er mótmælt að stjórnvöld ætli enn einu sinni að fresta því að taka á vanda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Starfsmannafélag Húsavíkur er innan BSRB. Ályktunina má sjá í heild sinni hér að neðan.
Ályktun stjórnar BSRB
Stjórn BSRB mótmælir því harðlega að enn og aftur ætli ríkisstjórn Íslands að halda inn í nýtt fjárlagaár án þess að taka á fjárhagsvanda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Í nýju fjárlagafrumvarpi er ekkert um hækkun á mótframlagi launagreiðenda til A-deildar LSR eins og lög kveða á um. Þá ætlar ríkið enn að fresta því að hefjast handa við að greiða inn á skuldir sínar við B-deild LSR.
Stjórnvöld hafa lengi verið full meðvituð um þá fjárhagserfiðleika sem B-deild LSR stendur frammi fyrir og þá ábyrgð sem hvílir á herðum stjórnvalda vegna skuldbindinga sinna við sjóðinn. Undanfarin ár hafa stjórnvöld metið það sem svo að brýnna væri að verja fjármunum sem með réttu ættu að renna í skuldbindingar B-deildar LSR í fjárfestingar á öðrum sviðum. Nú hlýtur að vera svo komið að þær fjárfestingar skili einhverju til baka þannig að LSR fái notið þess eins og lífeyrissjóðurinn hefur rétt á og fulla þörf fyrir.
Einnig hafa stjórnvöld undanfarin fjögur ár komið sér undan því að hækka iðgjaldið til A-deildar LSR og þannig í reynd búið til nýtt vandamál fyrir sjóðinn. Ef ríkið hækkar ekki iðgjaldið til A-deildar eins og þörf er á mun það leiða fyrr en síðar til enn lakari fjárhagsstöðu LSR. Eitt árið enn ætla stjórnvöld að velta vandanum á undan sér og þannig magna hann í stað þess að takast á við hann. Þessu mótmælir stjórn BSRB harðlega um leið og hún krefst þess að stjórnvöld bregðist við nú þegar.
Stjórn BSRB krefst þess einnig að stjórn LSR hækki mótframlag atvinnurekenda í A-deild líkt og launþegahreyfingin hefur ítrekað farið fram á frá efnahagshruni. Öðruvísi er sjóðurinn ekki fær um að standa við skuldbindingar til sjóðsfélaga sinna. Það er skýr krafa stjórnar BSRB að brugðist verið við vandanum nú þegar.