Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa bændur, sjálfboðaliðar og björgunarsveitir verið við leitir í Þingeyjarsýslum. Meðal þeirra sem leitað hafa eru fulltrúar frá Fjáreigendafélagi Húsavíkur sem beðnir voru um að leggja til mannskap til að ganga svæðið við Höskuldsvatn á Reykjaheiði sem er mjög erfitt yfirferðar norður að svokölluðum Reiðarárbotnum. Leitirnar gengu vel en þær hafa staðið yfir í tvo daga, það er á þessu afmarkaða leitarsvæði. Það ánægjulega var að allar kindurnar sem fundust voru lifandi en því miður sáust nokkrar tófur á svæðinu í leit að æti en þekkt er að tófur leggjast á kindur sem eru fastar í fönn. Ekki er ólíklegt að töluverður fjöldi fjár sé enn í fönn. Bændur og búalið mun því halda áfram leit á næstu dögum, það er meðan veður leifir. Aðstæður við Höskuldsvatn voru ekki góðar þegar félagar úr Fjáreigendafélagi Húsavíkur og Björgunarsveitinni Garðari voru þar við leit í gær.
Fjölmennir leitarflokkar hafa verið við störf í Þingeyjarsýslum sem hafa komið víða að.
Þeir Ágúst, Aðalsteinn og Grímur voru ánægðir með dagsverkið enda allar kindurnar sem fundust lifandi en flestar þeirra voru í sjálfheldu.
Torfi Aðalsteinsson sem var í leitarflokknum skoðar kindurnar sem náðust úr sjálfheldu við Höskuldsvatn.
Þá er að koma sér heim eftir leitirnar og hvíla sig fyrir frekari leitir daginn eftir.