Stéttarfélagið Framsýn skorar á Steingrím J. Sigfússon ráðherra Atvinnuvega- og nýsköpunarmála að setja skýrar reglur um upprunamerkingar á vörum s.s. lopapeysum sem prjónaðar eru erlendis úr íslenskri ull og fluttar inn til landsins. Óskað er eftir fundi með honum um málið. Bréf þess efnis fór frá félaginu í dag. Félagið telur neytendur eiga fullan rétt á því að vera vel upplýsta um þá vöru sem þeir kaupa, ekki síst minjagripi sem keyptir eru í þeirri trú að um íslenska vöru og handverk sé um að ræða. Bréfið er svohljóðandi:
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Hr. Steingrímur J. Sigfússon
Skúlagötu 4
150 Reykjavík
Húsavík 12. september 2012
Varðar merkingar á vörum
Eftir að handverksfólk hafði samband við Framsýn í sumar varðandi villandi merkingar á innfluttum prjónavörum s.s. lopapeysum vakti félagið athygli á málinu. Þess ber að geta að töluverður hópur innan félagsins og á landinu öllu hefur tekjur og atvinnu af því að framleiða prjónavörur og annan varning til sölu fyrir ferðamenn. Fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um málið og þá staðreynd að ekki eru í gildi ákveðnar reglur og lög um upprunamerkingar s.s. á lopapeysum. Þess vegna hafa innflutningsaðilar komist upp með að bjóða til sölu innfluttar lopapeysur úr íslenskri ull án þess að tilgreina framleiðslulandið.
Framsýn gerir ekki athugasemdir við innflutning á lopapeysum eða öðrum varningi til sölu fyrir ferðamenn sem heimsækja Ísland enda sé farið eftir gildandi lögum og reglum varðandi viðskipti milli landa.
Hins vegar gerir félagið kröfu um að innflutnings- og söluaðilum verði gert skylt að merkja innfluttar vörur með framleiðslulandinu. Neytendur eiga fullan rétt á því að vera vel upplýstir um þá vöru sem þeir kaupa, ekki síst minjagripi sem keyptir eru í þeirri trú að um íslenska vöru og handverk sé um að ræða.
Framsýn hvetur ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunar til að skoða málið með það að markmiði að settar verði skýrar reglur um upprunamerkingar er tengjast minjagripum og í víðara samhengi sé talin ástæða til þess.
Fulltrúar Framsýnar eru jafnframt tilbúnir að koma til fundar við ráðherra um málið sjái hann sér fært að verða við þeirri beiðni.
Undirritaður gefur frekari upplýsingar.
Virðingarfyllst!
Fh. Framsýnar, stéttarfélags
____________________________
Aðalsteinn Á. Baldursson
Framsýn gerir kröfu um að mótaðar verði skýrar reglur um upprunamerkingar á vörum s.s. lopapeysum sem prjónaðar eru erlendis úr íslenskri ull og fluttar inn til landsins. Félagið óskar eftir fundi með ráðherra um málið. Myndir: Jónas Reynir Helgason