Ármann Ægir Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs kom í heimsókn í íbúðir stéttarfélaganna í Þorrasölum fyrir helgina. Hann bauð stéttarfélögin (Þingiðn og Framsýn) velkomin í Kópavogin. Það væri gott að búa í Kópavogi eins og alþjóð vissi. Hann sagði það einnig fagnaðarefni að fyrsta blokkin í Kópavogi sem reist væri frá grunni eftir hrun, væri nú að verða fullgerð. Hann ítrekaði ánægju sína með nýju blokkina og að stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum skyldu fjárfesta í Kópavogi á mjög góðu svæði þar sem stutt væri í almenna þjónustu og frábært útivistarsvæði. Formaður Framsýnar þakkaði Ármanni fyrir hlý orð í garð stéttarfélaganna og sagði félagsmenn án efa eiga eftir því að njóta þess að dvelja í íbúðunum í Kópavogi.
Bæjarstjóri Kópavogs gaf sér tíma þrátt fyrir mikið annríki til að heimsækja fulltrúa stéttarfélaganna sem hafa síðustu daga unnið að því að ganga frá nýjum íbúðum í Kópavogi fyrir félagsmenn. Íbúðirnar fara í leigu til félagsmanna síðar í þessum mánuði.