Eftir tólf ára dvöl í Karíbahafinu er matreiðslumaðurinn Völundur Snær Völundarson loksins kominn á heimaslóðir en í byrjun júní opnaði hann veitingastaðinn Pallinn ásamt konu sinni, Þóru Sigurðardóttur. Staðurinn er staðsettur ofan á björgunarsveitarhúsinu svokallaða á Húsavík og býður upp á frábært útsýni yfir höfnina. Sjálft veitingarýmið er í 40 fm tjaldi þar sem stemningin er heimilisleg og afslöppuð. Virkilega áhugaverður veitingastaður. Skrautfjöður staðarins er sjálfsagt grillið ógurlega sem var sérsmíðað fyrir Pallinn af Stálnaust og grillar heilan skrokk á 90 mínútum. Það er einmitt lambið sem er helsta sérkenni staðarins auk sjávarfangs sem að ávallt er spriklandi ferskt og oftast úr flóanum. Áherslan er lögð á að skapa skemmtilega og afslappaða stemmningu og bjóða upp á góðan mat. Staðurinn hefur notið mikilla vinsælda meðal heimamanna frá opnun og miðað við móttökurnar er greinilegt að staðurinn er kominn til að vera.
Völundur Snær og Þóra ásamt öðrum starfsmönnum sem voru á vakt þegar myndin var tekin.
Völli Snær og Þóra eru ánægð með móttökurnar.
Það hjálpast allir að við að gera staðinn aðlaðandi með góðri þjónustu og frábærum veitingum með fersku hráefni.