Ósmekkleg auglýsing LÍÚ og FFSÍ

LÍÚ og Farmanna og fiskimannasamband Íslands hafa undanfarið sakað stjórnvöld um óvönduð vinnubrögð varðandi þau tvö frumvörp sem verið hafa til umræðu á þingi um stjórn fiskveiða og veiðigjald. Það er því mjög merkilegt að lesa auglýsingu frá þessum samtökum í Fréttablaðinu þar sem fullyrt er að sjómenn og landverkafólk standi sameinuð í afstöðu gegn frumvörpunum til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjalda. Þá taka þeir fram í auglýsingunni að vönduð vinnubrögð sé skýr krafa og eru þá að vitna til vinnubragða stjórnvalda. Þeir þurfa greinilega að líta í eigin barm. Hvernig geta þessi tvö samtök alhæft að sjómenn og landverkafólk um land allt standi við hliðina á útgerðarmönnum í þessu máli? Hvernig getur FFSÍ sem eru hagsmunasamtök sjómanna staðið að þessari auglýsingu, það er á sama tíma og

barið er á rétti sjómanna í öðrum málum eins komið er inn á í meðfylgjandi fréttatilkyningu Sjómannasambands Íslands.

Sjómannasamband Íslands taldi ástæðu til að senda frá sér fréttatilkynningu fyrir helgina þar sem skoðunum sambandsins er komið á framfæri varðandi frumvörpin og tillögur LÍÚ í kjaramálum sem miða sumar hverjar að því að skerða kjör stjómanna verulega.

 

Fréttatilkynning frá stjórn Sjómannasambands Íslands.

Undanfarna daga hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum um aðgerðir útvegsmanna gagnvart stjórnvöldum vegna frumvarpanna sem nú liggja fyrir Alþingi um veiðigjald og stjórn fiskveiða og þátt sjómanna í þeim aðgerðum.

Stjórn Sjómannasambands Íslands sendi Alþingi umsagnir um þessi frumvörp þar sem afstaða samtakanna til frumvarpanna kemur skýrt fram. SSÍ telur að með frumvarpinu um veiðigjöld á útgerðina gangi stjórnvöld of langt í tillögu sinni um skattheimtu á útgerðina og deilir því þessari skoðun með útvegsmönnum auk þess sem ýmislegt í frumvarpinu um stjórn fiskveiða þarf að laga að mati Sjómannasambands Íslands til að breytingarnar skaði ekki hagsmuni sjómanna.

Þó Sjómannasamband Íslands hafi í mörgum atriðum svipaða sýn og útgerðin hvað þessi frumvörp varðar er það alveg ljóst að samtökin eru ekki aðilar að aðgerðum útgerðarinnar hvað þessi mál varðar.

Auk þess er rétt að fram komi að kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir frá upphafi ársins 2011 og hefur ekki verið mikill vilji hjá útvegsmönnum til að ljúka samningagerð við samtök sjómanna. Nú nýlega vísuðu útvegsmenn kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Í kröfugerð LÍÚ á hendur sjómönnum kemur fram hörð krafa um verulega lækkun á launum sjómanna óháð því hvort frumvarpið um veiðigjöld verður að lögum eða ekki. Auk þess hafna útvegsmenn alfarið að bæta sjómönnum þá kjaraskerðingu sem sjómenn hafa þegar orðið fyrir vegna afnáms sjómannaafsláttarins. Jafnframt eru einstaka útgerðarmenn að þvinga fram fækkun í áhöfnum skipa til að lækka launakostnað og telja þeir að þær aðgerðir komi sjómönnum eða samtökum þeirra ekkert við. Fleira af þessum toga mætti nefna.

Í ljósi þess sem að framan er sagt, auk ýmissa annarra þátta, má ljós vera að Sjómannasamband Íslands er ekki aðili að aðgerðum útvegsmanna á sama tíma og barið er á rétti sjómanna í öðrum málum. Aðgerðir útvegsmanna gagnvart stjórnvöldum eru því alfarið á þeirra ábyrgð.

Reykjavík 7. júní 2012.

Deila á