Aðalfundur Framsýnar fór fram í kvöld. Á fundinum kom fram almenn ánægja með starfsemi félagsins, það er þjónustu við félagsmenn og fjárhagslega stöðu þess. Fundarmenn sáu ástæðu til að klappa fyrir stjórnendum félagsins fyrir vel unnin störf í þágu félagsmanna. Á síðasta ári varð tekjuafgangur af öllum sjóðum félagsins kr. 84.941.149,- er var kr. 81.608.720,- árið 2010. Heildareignir félagsins námu kr. 1.260.947,- í árslok 2011 samanborið við kr. 1.175.376.737,- í árslok 2010.Sterk staða gerir félaginu kleift að gera betur við félagsmenn en almennt þekkist meðal sambærilegra stéttarfélaga. Þá nýtur félagið mikils trausts meðal félagsmanna samanber fyrirliggjandi skoðanakannanir. Aðalsteinn Á. Baldursson var endurkjörinn formaður félagsins til næstu tveggja ára að telja. Um 2.300 félagsmenn eru í Framsýn- stéttarfélagi og nær félagssvæði þess frá Vaðlaheiði að Raufarhöfn. Hér má sjá nokkra athyglisverða punkta úr skýrslu stjórnar. Þess ber að geta að félagsmenn geta nálgast hana á skrifstofu félagsins vilji þeir fræðast betur um starfsemi Framsýnar á síðasta starfsári.
Fjöldi félagsmanna:
Alls greiddu 2116 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2011 en greiðandi félagar voru 2040 árið 2010. Félagsmönnum fjölgaði því milli ára um 76. Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 225, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Félagsmenn þann 1. janúar 2011 voru því samtals 2341 en voru árið áður 2250. Kynjaskiptingin í félaginu er mjög jöfn, konur eru 50,3% og karlar 49,7%.
Brim greiðir mest til Framsýnar
Alls greiddu 339 launagreiðendur til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 12 milli ára. Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2011 eftir röð:
Brim hf.
Norðurþing
G.P.G. fiskverkun
Norðlenska matarborðið ehf.
Ríkissjóður Íslands
Vísir hf.
Þingeyjarsveit
Hvammur, heimili aldraðra
Þingeyjarsveit
Eimskip Íslands ehf.
Jarðboranir hf.
Þetta er nokkuð fróðlegur listi. Útgerðarfyrirtækið Brim hf. greiðir mest allra atvinnurekenda til Framsýnar líkt og síðasta ár. Brim hf. greiddi samtals 6.817.393,- í iðgjöld til félagsins. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og iðgjöld fyrirtækisins í sjóði Framsýnar. Þrír efstu launagreiðendurnir skera sig nokkuð úr varðandi greiðslur til félagsins.
Greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði
Á árinu 2011 nutu 483 félagsmenn bóta úr sjúkrasjóði félagsins. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 23.777.583,-. Sambærileg tala fyrir árið 2010 er kr. 19.411.915,-. Samkvæmt þessum tölum varð veruleg hækkun á útgjöldum sjóðsins milli ára eða um 22%.
Atvinnumál og atvinnuleysi
Atvinnuástandið á félagssvæði Framsýnar hefur frekar farið batnandi frá hruni. Það sýna tölur Vinnumálastofnunar. Um þessar mundir eru 115 atvinnuleitendur á skrá hjá Vinnumálastofnun á félagssvæði Framsýnar. Atvinnuleysi á Norðurlandi-eystra var um 4,6% í apríl en var á sama tíma árið 2009 um 8,3%. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum erum við á réttri leið.
Félagsmenn Framsýnar fengu greiddar kr. 147.626.658,- í atvinnuleysisbætur og mótframlög frá Vinnumálastofnun á síðasta ári. Sambærilegar tölur fyrir árið 2010 eru kr. 176.741.379,- . Eins og sjá má lækkuðu greiðslurnar um 29 milljónir milli ára sem eru mjög jákvæðar fréttir.
Ég fer í fríið!
Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félagsins en þess ber að geta að félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 40.000,- per. viku dvöl. Þá fengu félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum kr. 442.088,-.
Tæpar 8. milljónir í námsstyrki
Á árinu 2011 fengu 278 félagsmenn Framsýnar greiddar 7.927.782,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Þar af fengu 157 einstaklingar greidda styrki úr Landsmennt, samtals greiðsla kr. 4.821.535,-. Alls fengu 15 félagsmenn styrki úr Sjómennt kr. 598.473,-. Úr Ríkismennt fengu 26 félagsmenn styrki kr. 605.133,-. Úr fræðslusjóði verslunarmanna fengu 54 félagsmenn styrki að upphæð kr. 1.313.740,-. Að endingu fengu 77 félagsmenn styrki úr Sveitamennt kr. 1.667.490,-. Til viðbótar má geta þess að 7 félagsmenn fengu sérstaka styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar kr. 235.151,-. Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum sbr. ákvæði kjarasamninga.
Baráttuandi í höllinni
Að venju stóðu stéttarfélögin fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2012, það er á baráttudegi verkafólks. Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega og um 800 manns tóku þátt í þeim.
VIRK að gera góða hluti
Í kjarasamningum árið 2008 komu inn ákvæði um stofnun starfsendurhæfingarsjóðs. Um er að ræða sjálfseignarstofnun sem stjórnað er af aðilum vinnumarkaðarins. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlagi launagreiðenda sem er 0,13% af launum. Virk – starfsendurhæfingarsjóður hóf starfsemi á árinu 2009. Í samvinnu við Framsýn stéttarfélag hófst starfsemin í Þingeyjarsýslum með tímabundnu tilraunarverkefni á haustdögum 2009. Í febrúar 2010 var síðan gerður samningur milli Framsýnar, Starfsmannafélags Húsavíkur, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar og Virk – starfsendurhæfingarsjóðs um aukna starfsemi á félagssvæðinu. Í septembermánuði 2010 hóf Ágúst Sigurður Óskarsson fullt starf sem ráðgjafi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum. Afar góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Virk og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest. Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa tekið upp samstarf við Virk – starfsendurhæfingarsjóð um ráðningu á einstaklingum sem eru að stíga upp úr veikindum og hafa ekki haft ráðningarsamband.
100 ára afmæli fagnað
Framsýn fagnaði 100 ára afmæli stéttarbaráttu í Íþróttahöllinni á Húsavík þann 1. maí 2011 en þá voru um 100 ár frá stofnun Verkamannafélags Húsavíkur. Hátíðin fór vel fram og var öllum til sóma. Um 1000 manns komu í höllina og tóku þátt í þessum merka áfanga í sögu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum. Forseti Íslands, Herra Ólafur Ragnar Grímsson, var sérstakur gestur hátíðarinnar. Hann lauk lofsorði á starfsemi og málflutning Framsýnar í ávarpi sínu. Þá má geta þess að félagið gaf út vandað blað í tilefni af afmælinu sem Jóhannes Sigurjónsson ritstýrði.
Félagsmenn ánægðir með afmælisgjöfina
Í tilefni af 100 ára afmælinu var samþykkt að færa fullgildum félagsmönnum afmælisgjöf kr. 10.000,-. Óhætt er að segja að gjöfin hafi mælst vel fyrir. Á árinu 2011 notuðu 247 félagsmenn gjöfina samtals krónur 2.453.794,- til niðurgreiðslna hjá félaginu. Í boði er að nýta afmælisgjöfina í tvö ár frá aðalfundinum 2011.
Framsýn kaupir íbúðir fyrir félagsmenn
Á síðasta ári var ákveðið að kaupa þrjár nýjar orlofsíbúðir fyrir félagsmenn sem þurfa suður á höfuðborgarsvæðið vegna veikinda eða orlofsdvalar. Þingiðn festi kaup á einni íbúð til viðbótar. Ákveðið var að kaupa íbúðir í fjölbýlishúsi í Þorrasölum í Kópavogi. Það sem réð því að félögin fjárfestu í Kópavogi var verðið og staðsetningin. Fjölbýlishúsið sem félögin kaupa í er við útivistarsvæði Garðbæinga og Kópavogsbúa. Mun dýrara hefði verið að kaupa samskonar íbúðir í Reykjavík. Freyjugatan, alls þrjár íbúðir sem Framsýn átti með Þingiðn hafa þegar verið seldar á 52 milljónir. Asparfellið hefur verið í söluferli og verður væntanlega selt í haust en þar á Framsýn eina íbúð. Heildarverðið á íbúðunum fjórum er kr. 96.135.000,-. Framsýn kaupir þrjár íbúðir í Þorrasölum á 73.235.000,-. Til frádráttar kemur eignarhlutur Framsýnar í Freyjugötunni upp á rúmlega 47. milljónir. Reiknað er með að kaupa nýtt innbú inn í allar íbúðirnar og selja gamla innbúið á Freyjugötunni. Ef allt gengur að óskum verða íbúðirnar afhendar þann 1. júlí í sumar.
Ályktað um orkuflutninga
Aðalfundur taldi ástæðu til að senda frá sér svohljóðandi ályktun:
„Aðalfundur Framsýnar- stéttarfélags hafnar alfarið hugmyndum Landsvirkjunar og stjórnvalda um að flytja út orku með sæstreng frá Íslandi til Evrópu. Að mati fundarins ber Íslendingum að ganga vel um þær náttúruauðlindir sem við búum yfir, með það að markmiði, að nýta þær með skynsamlegum hætti til atvinnusköpunar og framfara á Íslandi. Komi til þess að náttúruauðlindir á Íslandi verði virkjaðar til atvinnusköpunar í Evrópu mun það án efa draga úr hagvexti og atvinnuuppbygginu á Íslandi með hækkandi raforkuverði til fyrirtækja og heimilanna í landinu. Í því mikla endurreisnarstarfi sem framundan er eftir hrunið er ábyrgðarhluti að ætla að mæta því með því að selja orkuna til útlanda. Því mótmælir, aðalfundur Framsýnar- stéttarfélags.“
Góður andi var á aðalfundi Framsýnar í kvöld.
Einar og Ölver sáu ástæðu til að brosa á fundinum.
Aðalsteinn Árni Baldursson var endurkjörinn sem formaður Framsýnar í kvöld.
Orri Freyr fjármálastjóri Framsýnar fór yfir ársreikinga félagsins. Fundarmenn töldu ástæðu til að klappa fyrir stjórn og starfsmönnum félagsins fyrir frábær störf en félagið skilaði 84 milljónum í hagnað á síðasta ári.
Sigurveig Arnardóttir trúnaðarmaður starfsmanna á Hvammi var að sjálfsögðu á fundinum og í miklu stuði.