Vísbendingar um betri tíð

Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum  fór fram í gær. Miðað við þær upplýsingar sem lagðar voru fram á fundinum er greinilegt að atvinnulífið er á uppleið í Þingeyjarsýslum þar sem félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 5.588.982,- sem er 16,7% hækkun frá fyrra ári. Greidd félagsgjöld er góður mælikvarði á stöðu atvinnulífsins á svæðinu á hverjum tíma. Eins og sjá má hækkuðu félagsgjöldin og iðgjöldin um 16,7% milli ára sem er vísbending um að framundan sé betri tíð með blóm í haga. Þá má geta þess að rekstur Þingiðnar gekk vel á síðasta starfsári enda mikið aðhald í rekstri félagsins. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 11.967.639,- og eigið fé í árslok 2011 nam kr. 190.064.730,- og hefur það aukist um 6,7% frá fyrra ári. Árið 2010 var hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 9.050.497,-. Tekjuafgangur jókst því talsvert milli ára. Meðfylgjandi þessari frétt er fundargerð aðalfundarins.

Fundargerð:
Ár 2012, þriðjudaginn 29. maí fór aðalfundur Þingiðnar fram í fundarsal félagsins. Fundurinn hófst kl. 18.00. Formaður félagsins, Jónas Kristjánsson, bauð fundarmenn velkomna til fundarins. Hann gerði tillögu um Aðalsteinn Á. Baldursson sem fundarstjóra auk þess að gera tillögu um að hann ritaði fundargerð fundarins. Tillögur Jónasar voru samþykktar samhljóða.  Aðalsteinn þakkaði traustið og spurði hvort fundarmenn gerðu athugsemdir við boðun fundarins sem boðaður var samkvæmt lögum félagsins. Ekki komu fram athugsemdir við boðun fundarins og skoðast hann því lögmætur.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1.  Venjuleg aðalfundarstörf
2. Önnur mál

Niðurstöður fundarins:

1.       Venjuleg aðalfundarstörf
a)      Skýrsla stjórnar
Jónas Kristjánsson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar sem er eftirfarandi:

Fundir
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 19. apríl 2011 eru eftirfarandi: 

Stjórnarfundir                                                                         8
Fundir í sameiginlegri Orlofsnefnd stéttarfélaganna         2
Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna                                13 
Fundir í 1. maí nefnd                                                              2
Fundir skoðunarmanna reikninga                                        1
Fundir í stjórn sjúkrasjóðs                                                   12
Félagsfundir                                                                             2                                                                          Samtals fundir                                                                  40

 Að venju hefur formaður félagsins verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar.

Félagatal
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2011 voru 92 talsins sem er svipaður fjöldi milli ára. Karlar voru 90 og konur 2. Greiðandi einstaklingar voru 110 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins.

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 5.588.982,- sem er 16,7% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði námu kr. 814.172,- sem er heldur minna en árið áður. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 11.967.639,- og eigið fé í árslok 2011 nam kr. 190.064.730,- og hefur það aukist um 6,7% frá fyrra ári. Árið 2010 var hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 9.050.497,-  Tekjuafgangur jókst því talsvert milli ára. Rétt er að geta þess að fyrirtækið Norðurvík ehf. komst í greiðsluþrot á síðasta ári. Skuld fyrirtækisins við Þingiðn er kr. 718.543,- sem er í innheimtuferli hjá lögfræðingum félagsins. Á árinu 2011 fengu samtals 28 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði samtals kr. 814.172,-.

 Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið.  Félagsmönnum stóð til boða gisting á Hótel Keflavík, Gistiheimili Keflavíkur, Edduhótelum, Fosshótelum og farfuglaheimilum á síðasta ári og verður svo áfram á komandi sumri á sérstökum afsláttarkjörum. Gisti félagsmenn á Hótel Keflavík á leið sinni til útlanda er innifalið í verðinu gisting, morgunverður, geymsla á bíl og akstur á flugvöllinn. Það á einnig við um Gistiheimili Keflavíkur. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna stéttarfélaganna ásamt fjölskyldum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félaganna sem er aukning milli ára. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félaganna en þess ber að geta að þau niðurgreiða verulega orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Þá fengu 10 félagsmenn tjaldsvæðisstyrki samtals að fjárhæð kr. 93.650,-. Stéttarfélögin hafa áfram til sölu afsláttarmiða í Hvalfjarðargöngin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári spöruðu félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sér töluverða fjármuni með því að kaupa miðana hjá stéttarfélögunum í stað þess að kaupa þá við Hvalfjarðargöngin.

 Afmælisferð félagsins
Um 20 félagsmenn fóru í afmælisferð félagsins til Reyðafjarðar þann 4. júní 2011. Ferðin tókst vel eins og aðrar ferðir sem félagið hefur staðið fyrir. Í ferðinni skoðuðu menn m.a. álverið á Reyðarfirði.

Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári fengu 5 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 147.375,-

Stofnþing ASÍ-UNG
Alþýðusamband Íslands stóð fyrir stofnþingi ASÍ-UNG þann 27. maí 2011. Félagið átti einn góðan fulltrúa á stofnfundinum, Elvar Rúnarsson. 

Kjaramál
Gengið var frá kjarasamningi milli Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins þann 5. maí 2011. Félagið stóð fyrir félagsfundi um kjarasamninginn. Gestur fundarins var Finnbjörn Hermannsson formaður Samiðnar. Atkvæðagreiðsla um samninginn fór þannig að 79 voru á kjörskrá. Atkvæði greiddu 16 eða 20,25 félagsmanna. Já sögðu 13 eða 81,25% og nei sögðu 3 eða 18,75%. Samningurinn var því samþykktur af félagsmönnum. Kjarasamningurinn gildir til loka janúar 2014. Í samningnum eru skýr uppsagnar ákvæði bresti samningsforsendur.  Eins og staðan er í dag eru forsendurnar brostnar. Hvort samningum verður sagt upp mun koma í ljós næst þegar forsendurnar verða metnar sem verður um næstu áramót. 

Atvinnumál
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum hefur almennt verið nokkuð gott miðað við ytri aðstæður og lítið um atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna. Framtíðin er hins vegar óljós en vonandi tekst að snúa vörn í sókn í atvinnumálum sem fyrst með stórframkvæmdum á svæðinu.  

 Íbúðakaup
Félagsfundur í Þingiðn sem haldinn var 28. janúar 2012 samþykkti samhljóða að selja 25% eignarhlut félagsins í íbúð að Freyjugötu 10a (2-hæð) í Reykjavík til Framsýnar- stéttarfélags. Þess í stað var samþykkt samhljóða að kaupa 76,8m2  3ja herbergja íbúð í Þorrasölum í Kópavogi. Framsýn kaupir einnig þrjár íbúðir í sama fjölbýlishúsi. Íbúðin kostar 22.900.000,-. Söluverðið á eignarhlutnum í Freyjugötunni var rétt um 4.620.250,- sem telst mjög gott verð. Þá er reiknað með að nýtt innbú kosti um 3.000.000,- en gamla innbúið er úr sér gengið. Heildarkostnaður félagsins við íbúðaskiptin er áætlaður um 22 milljónir. 

Vinnustaðaskírteini
Rétt er að ítreka það að 15. ágúst 2010 tók gildi samkomulag milli ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini. Samkomulagið nær til starfsmanna og fyrirtækja í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð sem og rekstri gististaða og veitingahúsa. Virði fyrirtækin ekki samkomulagið eiga þau á hættu að fá háar sektir. Aðalsteinn Á. Baldursson er skipaður eftirlitsmaður á félagssvæði Þingiðnar.

 Hátíðarhöldin 1. maí
Að venju stóðu stéttarfélögin fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2011/12.  Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega og fjöldi fólks lagði leið sína í höllina. Talið er að um 800 manns hafi komið saman í höllinni 1. maí 2012.

Starfsemi félagsins
Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Leifsson, Sigurður Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson. Félagið stóð fyrir jólaboði í desember með öðrum stéttarfélögum sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Um 400 manns komu í heimsókn. Félagið taldi ástæðu til að senda frá sér stuðningsyfirlýsingu við kröfur lögreglumanna um betri kjör en þeir stóðu í kjaradeilu við ríkið á síðasta ári. Í síðasta ári samþykkti félagið að taka þátt í verkefni Lionsklúbbs Húsavíkur sem í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hefur komið á stað metnaðarfullu forvarnarstarfi er miðar að því að kalla alla þá sem verða 55 ára á hverju ári í fimm ár í krabbameinsskoðun, það er ristilspeglun. Framlag Þingiðnar til verkefnisins er kr. 250.000,-. Félagið kom að því að styrkja Tónlistarskólann á Húsavík um kr. 30.000,- vegna kaupa á hljóðfærum. Önnur aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna lögðu einnig fram peninga til verkefnisins. Þannig vildu félögin þakka Tónlistarskólanum fyrir þeirra framlag varðandi 1. maí og jólaboð stéttarfélaganna en nemendur skólans hafa komið fram á þessum skemmtunum án þess að taka greiðslur fyrir. Félagið hjálpaði Siglingadeild Völsungs að kaupa vandaðan bát fyrir starfsemina en hópur barna og unglinga stundar siglingar innan deildarinnar. Styrkur félagsins var kr. 50.000,-. Gengið var frá samningi við Bílaleigu Húsavíkur um sérstök afsláttarkjör fyrir félagsmenn stéttarfélaganna á bílaleigubílum í Reykjavík. Afslátturinn er 15% frá listaverði.

 Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Stöðugildi eru 5.3. Þar af greiðir VIRK- Starfsendurhæfingarsjóður eitt stöðugildi. Þá var Jóhanna Björnsdóttir ráðinn í sumarafleysingar sumarið  2011.  Snæbjörn Sigurðarson hætti störfum á síðasta ári og var Orri Freyr Oddsson ráðinn í hans stað. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu sem fjöldi fólks heimsækir daglega og þá kemur Fréttabréf stéttarfélaganna reglulega út fullt af fróðleik og upplýsingum til félagsmanna. Þá er skrifstofan opin átta tíma á dag. Skrifstofa stéttarfélaganna er í góðu sambandi við félagsmenn stéttarfélaganna og eru heimsóknir á hana mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting hefur verið á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna og þá hefur notkunin stóraukist varðandi aðra starfsemi eftir að fundaraðstaðan var tekin í gegn. 

Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

 b)      Ársreikningar
Orri Freyr Oddsson fór yfir ársreikninga félagsins og svaraði fyrirspurnum fundarmanna. Reksturinn gekk vel á árinu og er staða félagsins mjög góð. (Sjá dagskrárlið í skýrslu stjórnar undir liðnum fjármál) Fundarstjóri gerði fundarmönnum grein fyrir endurskoðunarbréfi vegna ársins 2011 frá pwc sem barst félaginu í dag frá endurskoðendum félagsins. 

c)       Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Undir þessum lið spurðu menn út í skýrslu stjórnar og reikninga. Almennt voru fundarmenn ánægðir með starfsemi félagsins og fjárhagslega afkomu þess. Eftir umræður voru ársreikningarnir bornir upp og samþykktir samhljóða. 

Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári var borin upp og samþykkt samhljóða. 

d)      Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
Jón Friðrik Einarsson formaður kjörnefndar gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar um menn í trúnaðarstöður í félaginu fyrir næsta kjörtímabil sem eru tvö ár. Tillögurnar eru á blaðsíðu 8 í fundargerðarbókinni.  Ekki bárust aðrar tillögur og skoðast þær því samþykktar.

 e)      Lagabreytingar
Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum. 

f)       Ákvörðun árgjalda
Tillaga stjórnar um að félagsgjaldið verði áfram 0,7% af launum starfsmanna var samþykkt samhljóða.

 g)      Laun stjórnar
Tillaga um að laun stjórnar verði óbreytt milli ára var samþykkt samhljóða. Það er þrír tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins.

 h)      Kosning löggilts endurskoðanda
Tillaga stjórnar um að PriceWaterhouseCoopers sjái um löggilta endurskoðun Þingiðnar fyrir starfsárið 2012 var samþykkt.

2.       Önnur mál
a)      Þórður Aðalsteinsson spurðist fyrir um stöðuna á Þorrasölum.  Aðalsteinn svaraði því til að verktakinn ætti að skila íbúðunum 1. júlí. Hann sagðist vera hræddur um að stæðist ekki. Þá kom fram hjá Aðalsteini að hann og Jónas formaður ætluðu suður á næstu dögum til að taka út stöðuna á verkinu.

b)      Kristinn Gunnlaugsson kom með tillögu um að skoðað yrði með menningarferð til Akureyrar næsta vetur. Vel  var tekið í tillögu Kristins og verður unnið með hana áfram í stjórn félagsins.

Deila á