Á fundi stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar síðasta miðvikudag kom fram megn óánægja með áhugaleysi hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík með að ganga frá samningi við Framsýn um kaup og kjör starfsmanna við hvalaskoðun. Krafan er að þegar í stað verði gengið frá samkomulagi milli aðila sem gildi fyrir sumarið 2012 en starfsmenn hafa verið samningslausir undanfarin ár. Stjórnin krafðist þess að formaður félagsins í samstarfi við stjórn deildarinnar geri allt til koma á samningi milli aðila. Þá hafa almennir starfsmenn fyrirtækjanna hvatt eindregið til þess að komið verði á samningi um kaup og kjör starfsmanna. Sjómannadeild Framsýnar hefur staðið fyrir nokkrum fundum með starfsmönnum og þá hefur einn samningafundur farið fram milli félagsins og hvalaskoðunarfyrirtækjanna. Í máli stjórnenda hvalaskoðunarfyrirtækjanna hefur komið fram vilji sé til þess að hefja frekari viðræður við Framsýn í haust með hugsanlegri aðkomu Samtaka atvinnulífsins. Framsýn hefur svarað þessum skilaboðum með því að Samtök atvinnulífsins verði þegar í stað fengin að málinu með það að markmiði að klára samkomulag milli samningsaðila nú í maí.