Sjómannadeild Framsýnar hefur samþykkt að vísa kjaradeilu félagsins við Svæðisfélagið Klett, félags smábátaeigenda frá Ólafsfirði að Tjörnesi til Ríkissáttasemjara. Um er að ræða kjarasamning fyrir sjómenn á smábátum að 15 brúttótonnum á Húsavík. Viðræður samningsaðila hafa staðið yfir í nokkra mánuði með hléum. Sjómannadeild Framsýnar telur fullreynt að ná samningi nema með aðkomu Ríkissáttasemjara. Þess vegna samþykkti stjórn Sjómannadeildar Framsýnar á fundi miðvikudaginn 16. maí að vísa málinu til Ríkissáttasemjara. Sjómannadeildin leggur mikið upp úr því að ná kjarasamningi enda slíkur samningur ekki til í dag sem er ólíðandi með öllu. Þess má geta að Sjómannasamband Íslands hefur samningsumboð fyrir önnur félög sjómanna innan sambandsins. Sjómannasambandið hefur þegar óskað eftir aðkomu Ríkissáttasemjara að kjaradeilunni þar sem samningar við Landssamband smábátaeigenda hafa ekki tekist.