Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum 8. maí. Mæting á fundinn var góð og umræður líflegar. Á dagskrá voru hefðbundin ársfundarstörf. Fjárfestingartekjur ársins námu ríflega 6 milljörðum króna. Ávöxtun Tryggingardeildar sjóðsins á árinu nam 5,2%. Ávöxtun á söfnum Séreignardeildar var á Safni I 9,9%, á Safni II 5,0% og á Safni III 8,3%. Hrein eign til greiðslu lífeyris var í árslok 117,1 milljarður króna og hækkaði um 7,4% á milli ára.
Tryggingafræðileg staða sjóðsins var neikvæð um 7,5% í árslok 2011. Lögð var fram tillaga um að lækka réttindi hjá sjóðnum um 7,5% til að mæta þessum halla og var hún samþykkt með miklum meirihluta atkvæða. Með þessari aðgerð er tryggingafræðileg staða sjóðsins góð og ekki líkur á að til frekari breytinga þurfi að koma á næstunni. Samtals hafa réttindi í sjóðnum verið lækkuð um 13,5% frá hruni, en fyrir hrun höfðu réttindi verið hækkuð aukalega um 14,75%. Þrátt fyrir þá lækkun sem nú var ákveðin munu lífeyrisþegar verða fyrir óverulegri skerðingu, þar sem lífeyrir þeirra frá Tryggingastofnun mun hækka á móti. Þannig er reiknað með að meðal skerðing á lífeyri verði um 0,4%.
Alls greiddu 18.320 sjóðfélagar iðgjöld til sjóðsins á árinu og námu iðgjaldagreiðslur tæpum 6 milljörðum kr. og hækkuðu um 8,4% frá fyrra ári. Samtals eiga um 80 þúsund manns réttindi í sjóðnum.
Lífeyrisgreiðslur ársins námu 3,6 milljörðum og hækkuðu um 10,4% frá fyrra ári.
Á fundinum voru kynntar nýjar hugmyndir að skipulagi sjóðsins þar sem markmiðið er að betra jafnvægi sé jafnan milli eigna og skuldbindinga. Jákvætt var tekið í þessar hugmyndir og var stjórn falið að vinna áfram að málinu.
Tveir stjórnarmenn, þeir Þórarinn Sverrisson og Sigurður Jóhannesson gengu úr stjórn og í þeirra stað voru kjörin í stjórn þau Orri Freyr Oddsson frá Framsýn- stéttarfélagi og Unnur Haraldsdóttir.
Stjórn sjóðsins er því þannig skipuð:
Ágúst Torfi Hauksson stjórnarformaður, Björn Snæbjörnsson varaformaður, Guðrún Ingólfsdóttir, Sigurður Hólm Freysson, Unnur Haraldsdóttir og Orri Freyr Oddsson.
Hér að neðan má finna frekari upplýsingar:
Ræðu stjórnarformanns má finna hér
Glærur frá fundinum má finna hér
Glærur vegna hugmynda um nýtt skipulag má finna hér
Breytingar á samþykktum má finna hér
Ársskýrslu sjóðsins má finna hér