Góður baráttuandi á Húsavík

Ein fjölmennustu hátíðarhöld verkafólks á Íslandi fóru fram á Húsavík í dag í góðu veðri. Um 800 manns lögðu leið sína í Íþróttahöllina þar sem hátíðarhöldin fóru fram. Boðið var upp á veglega skemmtidagskrá auk þess sem formaður BSRB, Elín Björg Jónsdóttir flutti magnaða hátíðarræðu sem er undir annarri frétt hér á heimasíðunni. Þá ávarpaði varaformaður Framsýnar, Kristbjörg Sigurðardóttir, samkomuna. Kristbjörg kom m.a. inn á jafnrétti kynjanna varðandi laun og  mikilvægi stéttarfélaga fyrir alþýðu landsins. Vissulega áhugavert ávarp sem er meðfylgjandi þessari frétt. Stéttarfélögin  þakka öllum skemmtikröftum, fummælendum og gestum fyrir komuna á hátíðna í dag.  

Kæru hátíðargestir:                                            

Um  heim allan fagnar vinnandi fólk 1.maí og þeim mikla árangri sem verkalýðshreyfingin hefur náð í gegnum tíðina. Fagnar þeim og heiðrar þá sem af dugnaði og réttlætiskennd hafa lagt svo mikið af mörkum í nafni jafnréttis, réttlætis og mannlegrar reisnar. Og baráttan um betri heim og samfélag mun halda áfram um ókomna tíð. Verkalýðshreyfingin  mun áfram styðja og standa með því fólki sem á einhvern hátt býr við brot  á réttindum sínum sem launafólk og manneskjur. Maður fyllist ákveðnu stolti þennan dag 1 maí þegar maður hlustar á ræðumenn tíunda þau réttindi og sigra sem náðst hafa  og unnist í gegnum tíðina og sögu verkalýðhreyfingarinnar í baráttu sinni fyrir bættum kjörum og réttindum  fyrir Launafólk sitt í landinu. Þetta er sá  dagur ársins sem leyfist  að tala bara um  unna sigra hennar. Alla aðra daga ársins er verkalýðhreyfingin  að vinna að og takast á við hin óteljandi verkefni og baráttumál líðandi stundar  með mismunandi sýn og skoðanir á málefnin gjarnan eftir því hvar þú býrð á landinu. Starfsgreinasambands Íslands hefur innan sinna vébanda 19 stéttarfélög og um 50 þúsund launafólk. SGS er búið að vera í ákveðinni tilvistarkreppu um árabil. Sambandið lagðist í naflaskoðun í vetur og spurning hefur verið um það hvort því entist líf fram á sauðburð í vor eða nánar tiltekið þann 10. maí næstkomandi en þá á að koma í ljós á framhaldsþingi þess hvort einhver burðugur skapningur fæðist eftir þessa meðgöngu í vetur,  síðan ákveða þessir 50 þúsund launamenn hvort þeir geta hugsað sér að fóstra hann og fóðra  til frambúðar.  Framsýn er  innan SGS og hefur tekið þátt í þessum umræðum og mótun.  Framsýn er kannski ekki stórt í þúsundum talið en það er stórt á verkalýðs pólitíska vísu.  Og  Verkalýðsbaráttan heldur áfram verkefnin mörg og brýn.

 Góðir Félagar:  

Af hverju þarf að tala um svo sjálfsagðan hlut  sem það er að   allir eigi rétt á mannsæmandi vinnu og lífi? Hvaða atvinna og líf er það sem er ekki mannsæmandi neinum?  Jú  öll hin margvíslega nauðungar og mannsals vinna í allri sinni skelfilegu mynd og það hörmulega líf  sem þeirri vinnu fylgir.  Við fordæmum alla þá sem á einhvern hátt  hagnast  á,  tengjast eða taka þátt í þeirri starfsemi. Að hagnast á neyð annarra er engum sæmandi. Ísland varð aðili að Félagsmálasáttmála Evrópu árið 1976 Ísland hefur undirritað en ekki fullgilt samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mannsali.

Góðir félagar:

Krafan um réttlátt samfélag fyrir alla lætur kannski ekki mikið yfir sér hún er orðin svo töm í munni.  Hún er bæði réttlát og falleg krafa og spilar sterkt á réttlætiskenndina. Síðastliðin ár,  eftir hrun þjóðarinnar haustið 2008   hefur samfélagið verið í sárum  aðgerðir og niðurskurðir hafa komið mis þungt niður á einstökum hópum og atvinnuvegi í þjóðfélaginu. Það má segja að við höfum öll verið þolendur hrunsins á einn eða annan hátt. Biðin eftir að stjórnvöld reisi þjóðarbúið við úr öskustónni er orðin löng. Enn  eru miklir umbrota tímar og óvissa um hvaða stefnu hin mörgu málefni sem brenna á þjóðinni taka og ekki margt sem bendir til þess að þeim sé að linna eða úrlausnar  von í þeim efnum. Það er heldur ekki margt sem bendir til þess í dag að hlutirnir séu að breytast frá því fyrir hrun og hið réttláta samfélag að taka við, og blómstra okkur öllum til handa, og biðin heldur áfram. Við erum reyndar ekki óvön því að bíða lengi eftir  sjálfsögðum og jafnvel lögbundnum hlutum…. það segir okkur hin 100 ára langa saga um jafnrétti og kynbundin launamun  þeirri sögu verður þó ekki gerð viðhlítandi skil hér. En ég velti fyrir mér nokkrum áherslupunktum og staðreyndum þessum málum tengdum, og ég spyr góðir félagar. Hvaða siðferði er það að viðhalda kynbundnum launamun í landinu? Hvað þá mismunun innbyrðis kynja á sömu vinnustöðum? Hverjir eru það svo í raun sem viðhalda honum?  Ég spyr? Er það verkalýðshreyfingin atvinnurekendur stjórnvöld fyrirtæki, stofnanir eða bara ég og þú sem launþegar? Viðgengst kynbundinn launamunur í okkar nærsamfélagi…Norðurþingi? eða er það bara við   „Eyjafjörð “ og á Súðavík“. Látum við það þá viðgangast í okkar nærsamfélagi  að viðhalda kynbundnum launamun ef hann er? Hvað er langt síðan að sett voru ákveðin réttindi og lög um sömu laun fyrir sömu vinnu? Kíkjum aðeins á nokkrar staðreyndir þar um. Árið 1911 höfðu konur fengið sama rétt til allra embætta og karlar og rétt til sömu launa fyrir slík störf. Og það eru rúm hundrað ár síðan. Rekur nokkurn mynni til þess,,,, síðastliðin hundrað ár… að konur hafi ekki haft sömu laun við embættisstörf og karlar   eða hvað……..  Barnakennarar fengu árið 1919 jafnan rétt til launa óháð kyni. Skyldu mínir gömlu barnaskólakennarar.. heiðurshjónin frá Ystafelli….. hafa haft sömu laun á sínum tíma? Með lögum frá 1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis var kveðið á um það að konur og karlar skyldu hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf. Það  eru 58 ár síðan þessi lög voru sett     þarna er stærsti hluti kvenna við umönnunarstörfin „ Það eru væntanlega engar brotalamir á þessu “ nema hvað að þegar tekið hefur verið tillit til aldurs, vinnutíma, starfsaldurs, starfsstéttar, menntunar, og vaktaálags stendur bara eftir 13,2% í óútskýrðan kynbundinn launamun. Árið 1958 fullgilti Ísland jafnlaunasamþykkt  Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1951 Með því skuldbatt Ísland sig til að tryggja jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Ég veit ekki   hvað hefur verið óskýrt við þessa jafnlaunasamþykkt en þremur árum seinna er bætt um betur og 1961 voru sett lög um launajöfnuð kvenna og karla. Samkvæmt þeim áttu laun kvenna að hækka á árunum 62-67 til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkavinnu, verksmiðjuvinnu sem og verslunar og skrifstofuvinnu. Já glæsilegt,  þannig að meira að segja  þegar ég var að byrja á vinnumarkað árið 1967 þá 17 ára, átti að vera búið að útríma launamun kynjanna samkvæmt lögum…, sömu laun fyrir sömu störf. Og svo árið 1976 voru fyrstu almennu lögin um jafnrétti kvenna og karla sett. Það eru sem sagt 36 ár síðan og á þessum árum hafa þau verið endurnýjuð fjórum sinnum. Nú eru fimmtu lögin í gildi og af þessu má þó sjá  áhuga löggjafarvaldsins til þess að útrýma þessum mun milli kynja. Hver er raunveruleg ástæða þess að ekki er farið eftir þessum  lögum í gegnum tíðina? Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á launamun kynjanna sem ekki er unnt að skýra með öðrum breytum en beinni kynbundinni mismunun. Stór könnun var gerð árið 2008 sem sýndi mun meiri launamun á landsbyggðinni en í þéttbýli. Fyrir þá sem eru glöggir og fljótir að reikna sjá þeir það að nú er svo komið árið 2012  að ég og samferðafólk mitt getum um það bil farið að hætta á vinnumarkaði.  Og nýjustu fregnir benda til þess að launamunurinn sé almennt að aukast.  Eins og ég orðaði  í upphafi þessa máls þá er búið að mismuna og brjóta lög á konum í rúm 100 ár. Það er ósk mín kæru hátíðargestir að á morgun er við göngum út í samfélagið okkar að við sameiginlega setjum upp þá gagnrýnu hugsun hvort sem er karl eða kona að kynbundnum launamun verði að linna og útrýma og við hvert okkar fyrir sig leggjum okkar af mörkum við að rannsaka, greina og uppræta þessa skömm sem konum er sýndur.

Góðir félagar:

Eins og ég sagði í upphafi  Baráttan um betri heim og samfélag heldur áfram. Verkalýðshreyfingin  mun áfram styðja og standa með því fólki sem á einhvern hátt býr við brot  á réttindum sínum sem launafólk og manneskjur. Verkalýðsbaráttan er sagan endalausa henni leyfist ekki að sofna á verðinum það er hlutverk félagsmannanna að passa upp á.

Kæru félagar,   ég óska okkur öllum til hamingju með daginn og    góðrar framtíðar. Sameinuð stöndum vér en sundruð föllum vér.

 Um 800 komu á samkomu stéttarfélaganna í dag á Húsavík.

 Nokkrar kynslóðkir voru samankomnar á hátíðarhöldunum.

Karlakórinn Hreimur söng fyrir gesti í dag.

Jögvan gerði það líka og fór á kostum.

 

Deila á