Við minnum félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur á að kjara- og viðhorfskönnunin sem Capacent Gallup er að framkvæma fyrir BSRB er enn opin. Nú eru allra síðustu forvöð að svara könnuninni og BSRB hvetur alla félagsmenn eindregið til að taka þátt í könnuninni enda skapar könnunin mikilvægan grunn til samanburðar og rannsókna á launaþróun meðal félagsmanna BSRB þar á meðal félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur.
Könnunin nýtist launamönnum, launamannahreyfingum og atvinnurekendum bæði til viðmiðunar á launum, þróun þeirra sem og til jöfnunar. Þá verða niðurstöður hennar jafnframt mikilvægt verkfæri í baráttunni gegn launamuni kynjanna og upplýsingarnar má nota til viðmiðunar fyrir félagsmenn í launaviðtölum sínum. Það er því mjög mikilvægt að sem flestir taki þátt til að niðurstöðurnar nýtist félagsmönnum sem best í baráttunni um betri kaup og kjör.
Við minnum einnig á að þátttakendur könnunarinnar eru jafnframt þátttakendur í happadrætti sem dregið verður úr við lok könnunar. Heppnir þátttakendur gætu því unnið gjafabréf frá Icelandair að verðmæti 60.000 kr. Capacent Gallup sér um alla gagnavinnslu og framkvæmd könnunarinnar og farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Ef einhverjar spurningar vakna varðandi könnunina er velkomið að hafa samband við BSRB í síma 525-8300 þar sem Hilmar Ögmundsson (hilmar@bsrb.is) veitir nánari upplýsingar. Einnig er hægt að hafa samband við Capacent Gallup í síma 540-1000 þar sem Þórhallur Ólafsson (thorhallur.olafsson@capacent.is) eða Tómas Bjarnason (tomas.bjarnason@capacent.is) veita allar nánari upplýsingar.