Orlofsnefnd stéttarfélaganna kom saman til fundar í vikunni og kláraði úthlutun á orlofshúsum fyrir sumarið 2012. Að venju barst mikill fjöldi umsókna frá félagsmönnum um orlofshús og íbúðir sumarið 2012. Alls bárust 136 umsóknir um orlofsvikur í þeim húsum sem verða í boði á vegum stéttarfélaganna í sumar. Til að koma frekar til móts við félagsmenn var framboðið aukið nokkuð milli ára. Eins og alltaf eru ákveðin hús vinsælli en önnur og því mikil ásókn í þau. Það á einnig við um orlofsvikurnar. Til dæmis sækir töluverður fjöldi um vikurnar í júlí og í byrjun ágúst sem er vikan sem tengist verslunarmannahelginni. Orlofsnefnd stéttarfélaganna tókst ekki að verða við öllum óskum félagsmanna um orlofshús sumarið 2012. Tæplega 100 manns fengu úthlutað vikum í fyrstu úthlutun. Á næstu dögum fá allir bréf, það er bæði þeir sem fengu úthlutað og eins þeir sem fengu ekki úthlutað húsi. Þeim verður boðið að sækja um þær vikur í orlofshúsum sem standa eftir en þær eru um þrjátíu víða um land. Eftir 1. maí verða svo þær vikur sem ekki gengu út við þessa úthlutun auglýstar lausar til umsóknar fyrir aðra en þá sem sóttu um fyrir frestinn sem gefinn var.