Fram kom í máli Hrafns Bragasonar, fyrrverandi Hæstaréttardómara og formanns nefndar sem falið var að gera úttekt á starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær að þingmenn gætu skipað nýja nefnd til þess að fara yfir starfsemi sjóðanna ef þeir teldu rannsókn nefndarinnar ekki nægjanlega.
Hrafn sagðist hins vegar ekki þörf á því að ný nefnd yrði skipuð og að hann sæi því eftir þeim fjármunum sem færu í það ef af yrði. Hann sagði nefndina sem hann veitti formennsku, og skipuð var auk Hrafns þeim Héðni Eyjólfssyni viðskiptafræðingi og Guðmundi Heiðari Frímannssyni heimspekiprófessor, hafa fengið öll þau gögn sem hún hefði óskað eftir og öll þau gögn sem ný rannsóknarnefnd myndi fá í hendur og að einungis fáeinir einstaklingar af þeim sem nefndin hafði samband við hefðu neitað að ræða við hana.
Umrædd nefnd skilaði af sér skýrslu sinni fyrr á þessu ári og var ítarlega gert grein fyrir henni í fjölmiðlum. Nefndin var skipuð í kjölfar samþykktar stjórnar og varastjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða í júní 2010 þar sem farið var þess á leit við ríkissáttasemjara að hann skipaði þriggja manna nefnd til þess að gera úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og áhættumati við fjárfestingar lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins í október 2008.
Hrafn sagði að viðbrögð stjórnenda lífeyrissjóða við skýrslu nefndarinnar hefðu verið með mismunandi hætti allt eftir því frá hvaða sjónarhóli viðfangefnið hefði verið nálgast. Hvort það hefði verið út frá því hvort hugsanleg lögbrot hefðu verið framin eða ekki. Þá hefðu umfjallanir fjölmiðla verið að sama skapi með mismunandi hætti. Dagblöðin tvö, Morgunblaðið og Fréttablaðið, hefðu gert skýrslunni góð skil á meðan önnur umfjöllun hefði verið síðri og sum afleit.
Hrafn lagði ennfremur áherslu á að úttekt nefndarinnar hefði ekki gefið tilefni til þess að einhver misferli hefðu átt sér stað í starfsemi lífeyrissjóðanna og ef svo hefði verið hefði nefndin haft samband við embætti sérstaks saksóknara. Nefndin hefði eins reynt að komast hjá því að fara inn á verksvið hans.
Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sagði að það væri vitanlega Alþingis að ákveða hvort þörf væri á frekari rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna og þingið hefði í hyggju að fara ítarlega yfir skýrslu nefndarinnar og meta hvort þörf væri á frekari úttektum