Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum auglýstu nýlega eftir almennum starfsmanni á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Fulltrúaráði stéttarfélaganna var falið það verkefni að fara yfir umsóknirnar sem bárust og velja hæfasta einstaklinginn með tilliti til starfsemi Skrifstofu stéttarfélaganna en starfsmanninum er ætlað að vera í þjónustuhlutverki við félagsmenn aðildarfélaganna.
Fulltrúaráðið er þannig skipað:
Stefán S. Stefánsson formaður Starfsmannafélags Húsavíkur
Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum
Olga Gísladóttir ritari Framsýnar, stéttarfélags
Ágúst Óskarsson starfsmaður Skrifstofu stéttarfélaganna var Fulltrúaráðinu innan handar við yfirferð á umsækjendunum og afgreiðslu málsins.
Fulltrúaráðið var sammála um að Steingerður Gísladóttir væri hæfasti umsækjandinn í starfið enda með mikla og góða reynslu af starfsemi félaganna þar sem hún starfaði á Skrifstofu stéttarfélaganna í tæplega 10 ár, áður en hún fluttist burt af svæðinu. Þegar til kom gat Steingerður ekki tekið starfinu og gaf það frá sér. Í ljósi þessa samþykkti Fulltrúaráðið einhuga að leita næst til Lindu M. Baldursdóttir og bjóða henni starfið sem hún og þáði. Linda hefur mikla og góða þekkingu á félagsmálum, málefnum stéttarfélaga og þjónustu við viðskiptavini. Linda starfaði hjá Samvinnubankanum síðar Íslandsbanka frá árinu 1988 til ársins 2012 eða í 24 ár. Lengst af sem þjónustufulltrúi við viðskiptavini bankans. Þá var hún um tíma varatrúnaðarmaður starfsmanna bankans. Auk þess starfaði Linda sem formaður Íþróttafélagsins Völsungs frá árinu 2000 til ársins 2011. Linda hefur sótt fjölda námskeiða með vinnu og hefur m.a. lokið starfstengdum námskeiðum frá Háskóla Íslands, Dale Carnegie námskeiði, leiðtoganámskeiði, námskeiði í ræðumennsku, námskeiði í framkomu í fjölmiðlum, sjálfstyrkingarnámskeiði og námskeiðum er tengjast bókhaldi, reiknishaldi og tölvukunnáttu. Þá hefur Linda stundað nám við Framhaldsskólann á Húsavík í vetur. Stéttarfélögin bjóða Lindu velkomna til starfa en hún mun hefja störf á næstu dögum.