Vilja að Vinnumálastofnun auki þjónustu sína á svæðinu

Framsýn hefur farið þess á leit við Vinnumálastofnun að hún efli þjónustu við atvinnuleitendur í Þingeyjarsýslum. Um 150 manns voru á atvinnuleysisskrá um síðustu áramót á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Vinnumálastofnun hefur verið með þjónustuskrifstofu fyrir atvinnuleitendur á Húsavík með tengingu við skrifstofu stofnunarinnar á Akureyri. Starfsmaðurinn á Húsavík var um tíma í 100% starfi en á síðustu árum hefur stöðugildið verið skorið niður í 40%.

Framsýn hefur áhyggjur af stöðu mála og telur mikilvægt að Vinnumálastofnun endurskoði starfshlutfallið á Húsavík með það að markmiði að ráðinn verði starfsmaður í fullt starf. Ljóst er að starfsmaður í 40%  starfi gerir ekkert annað en að taka á móti skráningum. Að mati Framsýnar er mikilvægt að auka úrræði fyrir atvinnuleitendur t.d. með virkri vinnumiðlun. Þessum þáttum verður ekki sinnt með eðlilegum hætti  nema starfsmaðurinn verði í fullu starfi.

 Framsýn treystir Vinnumálastofnun vel til að halda utan um málaflokkinn eins og kveðið er á um í lögum um stofnunina varðandi hlutverk og verkefni. Hins vegar telur félagið ekki líðandi hvernig mál hafa þróast í Þingeyjarsýslum og telur að bregðast verði við því. Að mati félagsins verður það best gert með því að Vinnumálastofnun endurskoði starfshlutfall starfsmannsins á Húsavík og ráði hann í fullt starf. Þannig verður komið til móts við skoðanir stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, atvinnuleitendur og atvinnurekendur.

Deila á