Skora á borgaryfirvöld að tryggja framtíð Reykjavíkurflugvallar

Framsýn- stéttarfélag hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun um Reykjavíkurflugvöll en miklar umræður hafa verið undanfarið varðandi framtíð flugvallarins. Verði flugvöllurinn lagður niður mun það hafa verulega slæm áhrif á alla þá sem þurfa að komast til og frá borginni við Faxaflóann.

Ályktun
Um Reykjavíkurflugvöll

„Framsýn- stéttarfélag skorar á borgarstjórn og skipulagsyfirvöld í Reykjavík að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Markmiðið verði að tryggja tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins. Ljóst er að flugvöllurinn gegnir veigamiklu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar, ekki síst er varðar aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að Hátæknisjúkrahúsum. Líflínan liggur í gegnum flugvöllinn.                                   

Almannahagsmunir krefjast þess að friður skapist um flugvöllinn í stað þeirrar miklu óvissu sem verið hefur um framtíð vallarins samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar. 

 Í gegnum tíðina hefur verið byggð upp opinber þjónusta á höfuðborgarsvæðinu fyrir almannafé, ekki síst af landsbyggðinni.  Borgarstjórn Reykjavíkur ber skylda til að veita íbúum landsbyggðarinnar aðgengi að þjónustunni með sem bestum hætti.  Lokun flugvallarins í Vatnsmýrinni er ekki leiðin til þess.„

 

Deila á