Þrumuskotin klikkuðu ekki hjá Óla

Aðalsteinn de Rauðatorg svarar enn Helga von Grafarbakka í síðasta Skapi. Góð lesning um helgina, annars góða helgi félagsmenn og aðrir landsmenn.

Félagi Helgi heldur áfram að rifja um minnisstæð augnablik úr fortíðinni  í Skarpi og sér allt í dýrðarljóma eftir stórsigra á suðurbæingum. Torgarar hafi orðið að lúta í mold og hólarar í möl enda lítið um gras á þessum tíma eftir yfirreið miðbæinga um gróin tún og svæði í suðurhluta bæjarins.

Samkvæmt orðabók Háskóla Íslands var hugtakið “Jarðvöðlar” fundið upp þegar miðbæingar voru upp á sitt besta þar sem þeir skildu  ætíð eftir við sig sviðna jörð og gróðursnauða hvar sem  þeir fóru um, enda alvanir gróður- og sólarleysi á Ásgarðsveginum og nærliggjandi götum.  Vissulega er það þannig að sigrar verða eðlilega mjög minnisstæðir þegar þeir eru sjaldgæfir. Þess vegna á Helgi mjög auðvelt með að rifja upp minningabrot um fátíða sigra miðbæinga frá sjöunda áratug síðustu aldar.  Stöðugir sigrar Torgara kalla hins vegar ekki á neinar sérstakar minningar frá einstökum leikjum, enda vorum við Torgarar aldrei spurðir af bæjarbúum hvort við hefðum unnið eða tapað leik. Það vissu allir um yfirburði Torgara nema miðbæingar sem lifðu í draumaheimi um frægð og frama á efri árum.

Mínar góðu minningar tengjast frekar frábærum stundum á Torgaravellinum þegar við vorum að fara yfir leikkerfin fyrir kappleikina á móti miðbæingum.  Reyndar vorum við með eitt leikkerfi, Óli í Norðurhlíð átti að spyrna verulega fast að marki andstæðinganna eins og honum einum var lagið. Við hinir áttum svo að vera klárir að fagna ógurlega áður en við hjálpuðum miðbæingum að taka nýja miðju svo við gætum skorað fleiri mörk en leikirnir voru yfirleitt alltaf upp í 10. Reyndar tók það verulega á þegar við vorum að æfa leikkerfið. Hvers vegna? Jú, ég var ævinlega settur í mark með gamla götótta vinnuvettlinga til að verjast skotunum frá Óla. Það var ekki auðvelt fyrir písl eins og mig sem þjáðist af næringarskorti og var ekkert annað en skinn og bein. En félagar mínir á Torginu veittu mér ætið góða aðhlynningu eftir skotárásirnar frá Óla og alltaf tókst þeim einhvern veginn að koma mér á fætur og blása í mig lífi. 

Æfingarnar skiluðu sér. Vel æft leikkerfi sem kostaði miklar fórnir klikkaði aldrei gegn miðbæingum. Óli tók útspörkin frá eigin marki og skaut föstum skotum í átt að marki andstæðinga sem oftast enduðu með glæsimörkum. Miðbæingar lágu eins og gamlir sjóreknir rekaviðardrumbar um allan völl enda mikið kappsmál hjá þeim að forða sér undan þrumuskotunum.

Það var alltaf “fella” hjá Óla í Norðurhlíð, blessuð sé minning hans.

 Áhyggjulaus á klósettinu

Já miðbæingar voru ansi lánlausir á vellinum enda þeirra helsta knattækni að skjóta með tánni. Skot þeirra rötuðu því aldrei á okkar mark. Hins vegar voru húseignir á Iðavöllum og Brávöllum í stórhættu svo ekki sé meira sagt. Boltarnir áttu það líka til að rata niður á Garðarsbraut eftir glórulaus skot miðbæinga, sem flestir lokuðu  ávallt augunum þegar þeir skutu að okkar marki, enda litlir kjarkmenn, sérstaklega Grafarbakkamenn. Þess vegna var ekki vinsælt að leggja til bolta þegar spilað var við miðbæinga.

Helgi hefur haft orð á því í sínum greinum að ég hafi hlaupið heim með boltann minn þegar miðbæingar hafi att kappi við Torgara. Það er rétt og ég skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það. Því það var hending, ef maður lagði til bolta í leik á móti miðbæingum, að maður fengi hann aftur í hendurnar að leik loknum.

Sem betur fer bjuggu margir öðlingar á Torginu á þessum tíma við völlinn sem afhentu okkar boltana aftur eftir að miðbæingar höfðu skotið þeim í girðingar, blómabeð, bíla, hús og rúður í næsta nágrenni við völlinn. Sumir húsbændurnir tóku reyndar boltana í sínar hendur og gerðu þá upptæka við litla hrifningu okkar. Eitt hús var í sérstakri skotlínu hjá miðbæingum, það var húsið hjá Ármanni og Rósu á Brávöllunum. Ég minnist þess þegar einn úr liði miðbæinga, án alls efa Helgi, hitti rúðu í húsi Ármanns og Rósu. Brothljóð heyrðust og einhver óhljóð enda skiljanlegt, þeir hæfðu gluggann á snyrtingunni.

Okkur setti hljóða, það er okkur Torgara. Miðbæingar hurfu hins vegar sporlaust eins og fellibylur enda þekktir fyrir að vera frekar huglausir þegar á reyndi. Þeir sáust ekki á Torginu í nokkra mánuði eftir þetta. Ármann kom hins vegar út, verulega brugðið eftir skotárásina og boltaförin á veggjum hússins. Það hafði nefnilega gert gróðrarskúr meðan á leiknum stóð og því voru fjölmörg moldarför eftir bolta á veggjum eftir feilskot miðbæinga að markinu. Ármann sem er í eðli sínu mikil heiðursmaður brosti til okkar eftir smá stund og sagði: “já, þið hafið greinilega verið að keppa við miðbæinga,” og byrjaði svo að hreinsa upp glerbrotinn.

Eftir þetta var reist heljarinnar girðing fyrir aftan mörkin úr löngum spírum og neti til að verjast glæfraskotum miðbæinga. Beisi og fleiri góðir foreldrar komu að þessu verki á sínum tíma.

Er rauða höndin að verki?

Það vakti athygli mína að Helgi svaraði því ekki til í síðustu grein hvort miðbæingar ætluðu að verða við áskorun Torgara um að mæta til leiks næsta sumar. Hugsanlega mun hann ekki ná í lið miðað við viðbrögðin sem ég hef fengið við grein sem ég skrifaði í Skarp 12. apríl 2012 eða 7. apríl 2011.  Nú halda sumir að ég sé endanlega orðinn vitlaus en svo er ekki, þó  hugsanlega séu ekki allir sammála mér núna. Það stendur nefnilega framan á títtnefndum Skarpi að það sé gefið út 12. apríl 2012 og inni í blaðinu fyrir ofan greinina kemur fyrir dagsetningin 7. apríl 2011. Samkvæmt þessu tók ár að prenta blaðið með tilheyrandi yfirvinnu fyrir Baldur Einars yfirprentara Skarps. Fyrir vikið kemst greinin á spjöld sögunar.

Hugsanlega hefur háttvirtur ritstjóri Skarps viljað benda mér vinsamlega á að greinin mín væri alltof löng, án þess að vera með dónaskap. Hins vegar held ég að það sé gróft samsæri í gangi hjá ritstjóranum og Helga Helgasyni, enda gerði ég ekki mikið úr afrekum ritstjórans úr miðbænum á fótboltasviðinu í greininni góðu sem skrifuð er í Skarp í janúar 2012, svo það sé á hreinu.

Jóhannes ritstjóri skuldar mér svör, var rauða höndin að verki eða voru þetta mannleg mistök? Verður einhver dreginn til ábyrgðar? 

Kom undir á  Torginu

Nú þegar hefur myndast gríðarleg spenna varðandi leik Torgara og miðbæinga næsta sumar. Rosalega margir hafa sett sig í samband við mig og lýst yfir áhuga sínum að fá að spila fyrir hönd Torgara. Hver vill ekki vera í sigurliðinu?  Löng röð myndaðist við borðið hjá mér á Þorrablóti Kvenfélagsins á Húsavík  á dögunum þar sem nánast annar hver gestur vildi skrá sig í liðið, en talið er að um 600 manns hafi verið á blótinu.  Átroðningurinn gerði það að verkum að ég gat keyrt allsgáður heim eftir þorrablótið enda enginn tími til að væta kverkarnar á blótinu eins og til stóð í góðra vina hópi.  Það kom sér reyndar vel daginn eftir.

Áberandi var hvað margir einstaklingar, sem ég hélt að væru miðbæingar eða jafnvel þekktir hólarar, tengdu sig Torginu með einum eða öðrum hætti. Þeir sögðust m.a. hafa verið á Dagheimilinu í gamla daga, frændi þeirra og frænka væru Torgarar, afi þeirra og amma hefðu sennilega búið á Torginu og einn sagðist hafa óstaðfestar upplýsingar um að hann hafi komið undir á Torginu og því væri hann gjaldgengur með Torgaraliðinu. 

Ekki er ólíklegt að Kári hjá Íslenskri erfðagreiningu verði fenginn til að útkljá hverjir teljast blóðbornir Torgarar svo ekki leiki vafi á því hverjir teljast gjaldgengir í Torgaraliðið næsta sumar, þvílíkur er áhuginn.

Góðar stundir þar til næst. 

Aðalsteinn Árni Baldursson,
sagnfræðingur frá Iðavöllum 2

 Löng röð myndaðist við borð greinarhöfundar á Þorrablóti Kvenfélags Húsavíkur. Lýðurinn vildi skrá sig í lið Torgara sem mætir liði miðbæinga næsta sumar. Oggi yfirtorgari var handlama við að skrá áhugasama til leiks, meðal annars nokkuð virta hólara sem sögðust vera Torgarar – inn við legginn. Myndasmiðurinn sem tók myndina blandaði sér inn í umræðuna og sagðist vera meiri Torgari en Bjarni Pétursson og bróðir hans til samans, þar sem hann hefði verið í pössun hjá Ólöfu frænku sinni á Torginu á síðustu öld. Svo mælti Hafþór Hreiðarsson útbæingur.

Deila á