Óánægja vegna hækkunar á fasteignagjöldum

Ljóst er að margir íbúar í Norðurþingi eru verulega óánægðir með umtalsverðar hækkanir á fasteignagjöldum á árinu 2012.  Samkvæmt upplýsingum frá Norðurþingi hækkaði álagningarprósentan hjá sveitarfélaginu ekki milli ára. Fjölmargir hafa sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og óskað eftir að félögin skoðuðu málið þar sem full þörf væri á því að gera alvarlegar athugasemdir við hækkanirnar. Við skoðun stéttarfélaganna kemur í ljós að meðaltalshækkunin er nálægt 18% milli ára. Hér er um meðaltal að ræða, sem þýðir að sumir greiða mun hærra meðan aðrir eru fyrir neðan meðaltalið.

Það sem vegur mest í hækkununum er hækkun Fasteignamats ríkisins á fasteignamati á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá þeim er meðaltalshækkunin um 15%. Þá vekur athygli að Norðurþing hækkar sorphirðugjöld á tunnu um 18%. Hækkunin fer úr kr. 38.847 milli árana 2011/12 í kr. 45.839,-. Samkvæmt könnun Alþýðusambands Íslands þar sem teknar voru fyrir breytingar á útsvari og fasteignagjöldum hjá 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins fyrir árið 2012 kemur í ljós að dýrast er að farga rusli fyrir íbúa Norðurþings samanborið við þau 15 sveitarfélög sem voru í könnuninni.  Sem dæmi má nefna, að á meðan íbúar Norðurþings greiða kr. 45.839,- fyrir hverja tunnu í sorphreinsunar- og sorpeyðingargjöld greiða íbúar í Garðabæ kr. 17.500,- fyrir sambærilega tunnu.  Munurinn er gríðarlegur eða um 162%.

Norðurþing hefur einnig  gert breytingar á afslætti til elli- og örorkulífeyrisþega. Hægt er að nálgast reglurnar á heimasíðu sveitarfélagsins. Í ákveðnum tilfellum er um að ræða verulegar hækkanir á fasteignagjöldum til þessa hóps. Ellilífeyrisþegar hafa lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Talsmenn Norðurþings bera því við að sveitarfélagið hafi orðið að bregðast við athugasemdum frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála en samkvæmt lögum ber sveitarfélögum að veita tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í sveitarfélaginu  afslátt frá fasteignaskatti.  Sveitarfélagið Norðurþing hefur undanfarin ár veitt öllum afslátt sem náð hafa 67 ára aldri.  Ráðuneytinu fannst sveitarfélagið Norðurþing ganga of langt þar sem lögin kveða á um að aðeins tekjulágir einstaklingar/sambúðarfólk ættu rétt til afsláttar á fasteignaskatti.  Sveitarfélagið lagði því fram reglur við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 og var lágmarkstekjum stillt yfir viðmiðunarmörkum Tryggingarstofnunar.  Þannig geta þeir sem eru tekjulágir og falla undir skilgreininguna sótt um afslátt og er hann þá veittur í samræmi við þau lög og reglur sem um hann gilda að því er fram kemur í svari við fyrirspurn stéttarfélaganna.  Hækkanir á fasteignagjöldum hafa m.a.  þau áhrif að ráðstöfunartekjur heimilanna skerðast og lítið verður úr þeim launahækkunum sem fólk fær í hendurnar í febrúar og mars sem nema 3,5%.

Hægt er að nálgast könnun Verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á útsvari og fasteignagjöldum 2012 með því að smella á neðangreinda slóð.

Könnun ASÍ

Deila á