LÍÚ og Samtök atvinnulífsins annars vegar og sjómannastökin hins vegar hafa gengið frá samkomulagi um hækkun á kauptryggingu og kaupliðum kjarasamninga frá 1. febrúar 2012 um 3,5%. Þannig verður kauptrygging háseta kr. 220.486,-, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanns og netamanns kr. 275.607 og yfirvélstjóra, fyrsta stýrimanns og skipstjóra kr. 330.729,-. Kjarasamningar sjómanna á fiskiskipum hafa verið lausir frá 1. janúar 2011 og ekki er útlit að á því verði breyting á næstunni. Í desember 2010 lýsti formaður LÍÚ því yfir að ekki yrði samið við sjómenn fyrr en niðurstaða væri fengin varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiðanna. Niðurstaða í því máli hefur ekki enn fengist og því nánast engar viðræður í gangi milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins. Þrátt fyrir samningsleysið hefur LÍÚ fallist á að hækka kauptryggingu og aðra kaupliði hjá sjómönnum um sömu prósentuhækkun og samið var um á almenna vinnumarkaðnum. Ekki er sjálfgefið að launaliðir hjá sjómönnum hækki þar sem samningar eru lausir. Engu að síður samþykkti LÍÚ að gera samkomulag við samtök sjómanna um hækkun kauptryggingar og annarra launaliða frá 1. febrúar næstkomandi, þegar ljóst varð að samningum á almenna vinnumarkaðnum yrði ekki sagt upp.