Framsýn ber saman leikskólagjöld

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla með fæði hjá 15 fjölmennustu sveitafélögum landsins við upphaf árs 2012, sjá frétt ASÍ. Framsýn fékk leyfi til þess að bera gjaldskrá leikskóla Norðurþings saman við sveitafélögin sem voru með í könnuninni.

8 tíma vistun með fæði, almenn gjaldskrá

40% verðmunur er á hæstu og lægstu gjaldskrám sveitafélaganna fyrir 8 tíma vistun með fæði. Hæsta gjaldið fyrir þessa þjónustu eru 34.342 kr./mán. hjá Ísafjarðabæ og lægst hjá Reykjavíkurborg 24.501 kr./mán. Þegar gjaldskrá leikskóla Norðurþings er borin saman við 15 stærstu sveitafélög landsins má sjá að gjaldskráin er 28% hærri en hjá Reykjavíkurborg sem er með lægstu gjaldskránna. Kostar mánuðurinn 31.375 kr. hjá  Norðurþingi sem gerir sveitafélagið með níundu lægstu gjaldskránna í samanburðinum.

9 tíma vistun með fæði, almenn gjaldskrá

41% verðmunur er á hæsta og lægsta mánaðargjaldinu. Hæsta gjaldið er hjá Fljótdalshéraði en þar kostar mánuðurinn 42.296 kr. en lægsta gjaldið er hjá Skagafirði á 30.004 kr. Norðurþing er með 14% hærri gjaldskrá en Sveitafélagið Skagafjörður sem er með lægstu gjaldskránna. Kostar mánuðurinn 34.170 kr. hjá Norðurþingi sem gerir sveitafélagið það fjórða lægsta í samanburðinum.

Forgangshópar

Allt að 80% verðmunur er á hæsta og lægsta mánaðargjaldi fyrir forgangshópa í 8 tíma vistun með fæði, en lægsta gjaldið fyrir þessa þjónustu greiða foreldrar í Reykjavík 14.477 kr. og hæsta gjaldið greiða foreldrar í Fjarðarbyggð 26.129 kr. Hjá Norðurþingi er gjaldið 25.079 kr. eða 74% hærra en í Reykjavík.

Lægsta mánaðargjaldið fyrir forgangshópa í 9 tíma gæslu með fæði er einnig í Reykjavík 19.378 kr. en hæsta gjaldið er hjá Fljótdalshéraði 33.848 kr. eða 75% munur á hæsta og lægsta verði. Hjá Norðurþingi er gjaldið 27.087 kr. eða 40% hærra en í Reykjavík.

Deila á