Gríðarleg gremja í garð ríkisstjórnarinnar kom fram á formannafundi ASÍ í dag þegar ræddar voru forsendur kjarasamninganna. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði í upphafi fundar að það væri makalaus staða að það væri ríkisstjórnin sem skuli vera sá aðili sem ógnar þeirri sátt sem náðst hefur á vinnumarkaði. Á fundinum kom hver formaðurinn á fætur öðrum í ræðustól og lýsti óánægju sinni með framgöngu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Ljóst er að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við mörg af þeim ákvæðum sem hún skrifaði undir í tengslum við kjarasamningana 5. maí og af þeim svikum stafar reiði verkalýðshreyfingarinnar.
Samninganefnd ASÍ mun funda í fyrramálið en umboð til að segja upp eða framlengja samningum er hjá henni. Endurskoðun samninganna á að ljúka fyrir klukkan fjögur á morgun.