Fulltrúar Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Þórshafnar hafa ákveðið að funda í Reykjavík síðdegis miðvikudaginn 18. janúar og fara yfir forsendur kjarasamninga og uppsagnarákvæði samningsins. Þessi þrjú félög sögðu skilið við önnur aðildarfélög Starfsgreinsambandsins í síðustu kjarasamningum vegna óánægju með áherslur þeirra í kjaramálum og sömdu því sér. Á fundi þessara þriggja félaga í næstu viku mun ráðast hvort félögin muni leggja til við formannafund ASÍ 19. janúar að kjarasamningum verði sagt upp eða ekki. Ljóst er að stjórnvöld hafa ekki staðið við sinn hluta samningsins og því eru forsendur til staðar að segja kjarasamningunum upp eins og fram kom á formannafundi ASÍ fyrir nokkrum dögum. Þar kom fram hörð gagnrýni á stjórnvöld sem ekki hafa staðið við gefin loforð sem fylgdu með síðustu kjarasamningum. Vanefndir stjórnvalda hafa þegar komið mjög illa við verkafólk. Það mun því ráðast í næstu hvort launþegar innan ASÍ verði samningslausir og hér verði allt í uppnámi næstu mánuðina eða ekki. Þess má geta að Framsýn- stéttarfélag hefur boðað samninganefnd félagsins saman til fundar á morgun til að fara yfir stöðuna. Tæplega 30 félagsmenn eru í nefndinni frá flestum stærri vinnustöðum í Þingeyjarsýslum en Framsýn telur rúmlega 2000 félagsmenn.