Miklar umræður urðu um málefni sjómanna og forystu verkalýðshreyfingarinnar á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar í gær. Komið var m.a. inn á lífeyrissjóðsmál, kjaramál, verðmyndun á afla, mönnun á ísfisktogurum, fiskveiðistjórnunarkerfið og framlagðar tillögur LÍÚ er snúa að endurskoðun kjarasamninga. Þá var samþykkt að óska eftir viðræðum við Landhelgisgæsluna um gerð kjarasamnings fyrir undirmenn en óskir þess efnis hafa komið frá áhafnarmeðlimum varðskipa til Framsýnar. Jafnframt var ákveðið að koma á framfæri við sjávarútvegsráðherra óánægju með að ráðuneytið ætli að gera upptækan lúðuafla með nýjum reglum án þess að greiða fyrir hann. Það er þegar lúða er meðafli með öðrum afla. Á fundinum í gær fór einnig fram stjórnarkjör. Stjórnin verður þannig skipuð næsta starfsár:
Jakob Gunnar Hjaltalín formaður
Stefán Hallgrímsson varaformaður
Kristján Þorvarðarson ritari
Haukur Hauksson meðstjórnandi
Björn Viðar meðstjórnandi