Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna héldu Færeyskir sjómenn upp á 100 ára afmæli samtaka sjómanna um helgina með miklum afmælisfagnaði í Þórshöfn. Formaður Framsýnar var heiðursgestur í afmælinu.
Að sögn Aðalsteins fór afmælið vel fram enda Færeyingar snillingar í að skipuleggja hátíðarhöld og jafnframt miklir höfðingjar heim að sækja. Auk þess að taka þátt í afmælisfagnaðinum var Aðalsteini boðið í heimsóknir til vina og forystumanna sjómanna- og landverkafólks í Færeyjum.
Sjómenn fögnuðu 100 ára afmæli samtaka sjómanna í Færeyjum á föstudaginn. Um 150 gestir tóku þátt í afmælisfagnaðinum sem fór vel fram.
Formaður Framsýnar flutti stutta ræðu í afmælinu og óskaði sjómönnum til hamingju með afmælið með kveðju frá félagsmönnum Framsýnar og Íslenskum sjómönnum. Auk þess færði hann formanni Sjómannafélags Færeyja gjöf frá félaginu.
Það er virkilega jólalegt í Þórshöfn enda mikið lagt upp úr fallegum jólaskreytingum.
Þessir fallegur hrútar voru í garði einum í miðbæ Þórshafnar. Í glugganum má sjá eigandann sem fylgist með fjárstofninum sínum.
Skerpukjötið klárt. Alls staðar þar sem Aðalsteinn kom var honum boðið upp á skerpukjöt sem flestir Færeyingar elska. Aðalsteinn kom sér hins vegar hjá því að borða það enda ekki gefinn fyrir slíkan mat.
Heiðurshjónin Gunnvor og Hilmar Joensen buðu Aðalsteini til kvöldverðar í Nólsey sem er rétt fyrir utan Þórshöfn. Þau kenna bæði við grunnskólann á eyjunni. Hilmar og Aðalsteinn sem eru góðir vinir starfa báðir í norrænu verkefni sem þeir voru beðnir um að taka þátt í fyrir hönd Færeyinga og Íslendinga á þessu ári. Verkefnið tengist verkalýðsmálum.