Umræða um fiskveiðistjórnun í stað glasastorms í stjórnarráðinu

Atli Gíslason alþingismaður skrifar góða grein um sjávarútvegsmál í Eyjafréttir 13. desember. Þar fjallar hann um umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið og hugmyndir starfshóps sjávarútvegsráðherra sem hann sat í ásamt formanni Framsýnar, Aðalsteini Á. Baldurssyni og Jóni E. Friðrikssyni framkvæmdastjóra FISK seafood. Greinin er svohljóðandi:

Nærri þrjár vikur eru nú liðnar síðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti birti á vefsíðu sinni tillögur starfshóps að breytingum á lögum um fiskveiðistjórnun. Líklega hefur engin birting á vef Stjórnarráðsins fengið viðlíka auglýsingu eins og hér varð þegar hæstvirtur forsætisráðherra kynnti málið fyrir alþjóð í sunnudagshádeginu 27. nóvember.

En hvorki í máli forsætisráðherra né í umræðu sem á eftir kom bar mikið á faglegri umræðu um tillögurnar eða stjórn fiskveiða. Talsmenn greinarinnar komu nokkrir fram með heldur hraðsoðin álit þess efnis að þetta væri eins og allt annað sem lagt hefði verið til ómögulegt! Undantekning frá þeirri reglu var málefnaleg umræða talsmanns smábátasjómanna.

Það ógnar vitaskuld þeim sem engu vilja breyta þegar fram koma tillögur sem feta hið mjóa einstigi umræðunnar og eru til þess fallnar að geta orðið grundvöllur sátta í samfélaginu. Á hina hliðina eru öfl sem ekki vilja tapa þeirri stöðu að benda á “glæp” og vita sig á berangri ef takast mætti að koma skynsamlegri sátt á í þessu áratuga deilumáli. Í því skyni er spunninn sá þráður að tala um seinagang ráðuneytisins vegna 7 vikna vinnu í máli sem áður var yfir 20 mánuði í samráðsferli stjórnarflokkanna og fimm mánuði í meðförum Alþingis. Að ekki sé talað um brosleg mótmæli við því að hlutlaus vinnuskjöl fari í almenna kynningu.

Nú þegar þann storm hefur lægt sem varð í vatnsglasi á stjórnarheimilinu er tímabært og málefnalegra að hefja umræðu um þær tillögur sem fyrir liggja. Ég vil af því tilefni fara yfir meginatriðin og skora um leið á hagsmunaaðila og almenning að bregðast við með ábendingum og athugasemdum eins og boðið er á vef ráðuneytisins.

 • Lögfest er að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu þjóðareign sem óheimilt er að láta varanlega af hendi. Markmið laganna eru styrkt með áherslu á atvinnu og byggð.

• Lögð er veruleg áhersla á festu í málefnum sjávarbyggða og þeim tryggður öruggur og varanlegur aðgangur að auðlindinni.

• Gert er ráð fyrir sérstökum samningum um nýtingu á aflaheimildum sem verði að upphafi til tuttugu ára og nýtingarhafi eigi rétt á endurskoðun innan sex ára frá samningslokum og framlengingu í fimmtán ár. Þar með rofið hið meinta eignarréttarlega samband sem er eitt mikilvægasta atriði tillagnanna, en um leið er nýtingarhöfum skapað rekstraröryggi.

• Aflaheimildum er skipt í tvo flokka, flokk 1, samningar um nýtingu, og flokk tvö, sem skiptist í hluta. Hér er farin „pottaleið“ í anda tillagna sáttanefndarinnar. Mælt er fyrir breytingum frá maífrumvarpinu sem ég kalla fyrir Vestmannaeyinga „Sigurjónsleið“. Þær fela í sér að aukning á afla í þorski, ýsu, ufsa og steinbít umfram meðalafla síðustu tuttugu ára skuli renna til helminga í flokk eitt og tvö. Aukning afla sem rennur til flokks tvö skal að hálfu ráðstafað til byggðaaðgerða og að hálfu til ráðstöfunar á kvótaþingi Fiskistofu sem allir geti boðið í eftir reglum þar að lútandi.

• Gagnmerk er að mínu mati sú tillaga að 40% veiðigjalds renni til sjávarbyggða, 10% til þróunar og markaðsmála í sjávarútvegi og 50% til ríkissjóðs.

• Varanlegt framsal á aflaheimildum er verulegum takmörkum háð í þágu sjávarbyggða. Lagt er til að ráðherra geti hafnað varanlegu framsali úr byggðarlagi umfram 15% miðað við aflaheimildir fiskveiðiárið 2011 til 2012 eða beitt forgangsrétti til að tryggja að aflaheimildir verði áfram bundnar við viðkomandi sjávarbyggðir.

• Framsal á krókaaflamarki og aflamarki verði verulega takmarkað innan hvers fiskveiðiárs og réttindi til framsals aðeins áunnin með veiðum.

• Kvótaþingi verði komið á fót á nýjan leik.

• Verkefni sjóðs til að auka verðmæti sjávarafla verði lögbundin með frumvarpi um svonefndan AVS sjóð.

• Lagðar eru til umtalsverðar breytingar á byggðakvóta sem miða allar að því að gera framkvæmdina einfaldari, gagnsærri og skilvirkari. Magn til byggðakvóta er aukið verulega og krafa um tvöföldun afnumin sem er til þess fallin að auka nýliðun í anda álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

• Heimilt verður að taka frá allt að 5% af uppsjávarveiði vegna óhjákvæmilegs meðafla við aðrar veiðar.

• Breytingar eru gerðar á ákvæðum gildandi laga um hámarksaflahlutdeild sem einn aðili getur haft yfir að ráða í hverri fisktegund til að koma í veg fyrir frekari samþjöppun og til að auka samkeppni, en með rúmu ráðrúmi til aðlögunar. Jafnframt eru hert ákvæði um samstarf og tengsl aðila.

Hér hafa verið nefndar meginbreytingar sem fyrrnefndur starfshópur lagði til á vinnuskjali til umræðu innan ríkisstjórnarinnar og þingflokkanna með aðkomu hagsmunaaðila og almennings. Þær eru sannarlegar umræðunnar virði og ég skora enn og aftur á alla sem vilja láta málið sig varða að taka þátt í málefnalegum umræðum um þessar breytingar og aðrar ónefndar. Öll skjöl málsins er að finna á heimasíðu ráðuneytisins.

 Atli Gíslason, alþingismaður

 (eyjafrettir.is)

Deila á