Eitt af hlutverkum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum er að fylgjast með svarti atvinnustarfsemi á félagssvæði félaganna. Félögin voru þátttakendur í verkefni Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Ríkisskattstjóra sem efnd var til í sumar er nefndist „Leggur þú þitt af mörkum?“ en markmið þess var að sporna gegn svartri atvinnustarfssemi og bæta skil á lögbundnum gjöldum. Þetta samstarfsverkefni var hluti af nýgerðum kjarasamningum ASÍ og SA og beindist að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Útreikningar benda til að glötuð verðmæti vegna undanskota nemi 13,8 milljörðum króna á ári og er gert ráð fyrir að þar af séu glötuð réttindi launafólks 8 milljarðar króna. Opinber gjöld yfir 400 fyrirtækja verða endurákvörðuð í kjölfar verkefnisins.
Áberandi var hversu mikið þekkingarleysi er á markmiðum og innihaldi laga og reglugerða um tekjuskráningu, virðisaukaskatt og staðgreiðslu sem og á kjarasamningum. Þetta eru alvarlegir áhættuþættir sem líklegt er að leiði til rangrar meðferðar á sköttum, gjöldum og kjarasamningsbundnum réttindum. Ríflega tvö þúsund fyrirtæki voru heimsótt í átakinu og reyndust einhver frávik frá réttri framkvæmd vera hjá yfir helmingi fyrirtækja sem heimsótt voru eða í 55,3% tilfella.
12% vinna svart
Niðurstaðan var að 737 (12%) einstaklingar af 6.167 starfsmönnum sem skráðir voru reyndust vera í svartri vinnu. Þessir starfsmenn voru hjá 16% fyrirtækjanna sem voru heimsótt.
Hvar eru flestir í svartri vinnu? – Niðurstaða þessa verkefnis sýnir að svört vinna er yfirgnæfandi mest í rekstri hjá litlum fyrirtækjum, þ.e. þeim sem eru með ársveltu undir 150 milljónir króna. Þar er að finna 91% af þeirri svörtu vinnu sem mælist samkvæmt reiknilíkani ríkisskattstjóra eða samtals 12,6 milljarðar.
Töpuð réttindi – Ekki aðeins skila tekjur sér ekki í sameiginlega sjóði landsmanna, heldur eru afleiðingarnar lakari kjör einstaklingar og töpuð réttindi á vinnumarkaði.