Slysavarnarnefnd kvenna færð gjöf frá STH

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur fór fram síðasta föstudag á Veitingastaðnum Sölku. Fundinn sóttu 38 félagsmenn. Formaðurinn Stefán Stefánsson fór með skýrslu stjórnar og í framhaldi af henni fór Snæbjörn Sigurðarson yfir reikninga félagsins fyrir árið 2010. Nokkrar fyrirspurnir komu fram um skýrslu stjórnar og reikninga sem félagarnir svöruðu. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.

Því næst var farið yfir fyrirliggjandi lagabreytingar sem unnar voru af þeim Snæbirni Sigurðarsyni, Kristínu Arinbjarnardóttur og Stefáni Stefánssyni. Tillögurnar voru samþykktar að undanskyldri 3. grein sem tók þó smá breytingu. Eftir lagabreytingarnar var gengið til kosninga stjórnar til næstu tveggja ára. Á fundinum á föstudag var gengið frá kjöri á formanni, ritara og einum meðstjórnanda. Á næsta ári verður svo kosið um gjaldkera og einn meðstjórnanda.  Stefán Stefánsson var endurkjörinn formaður félagsins, Guðrún Kristín Magnúsdóttir ritari og Helga Árnadóttir meðstjórnandi sem er nýr liðsmaður í stjórn. Höfðinginn, Björn Hólmgeirsson, gaf ekki kost á sér áfram og var honum þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins. Fyrir í stjórn eru Ása Gísladóttir gjaldkeri og Helga Eyrún Sveinsdóttir meðstjórnandi. Þá var einnig gengið frá kjöri félagskjörinna endurskoðenda. Þau eru, Jóhanna Björnsdóttir og Guðmundur Guðjónsson og til vara Anna Ragnarsdóttir. Fulltrúar í stjórn lífeyrissjóðs LSSH, Ása Gísladóttir og Stefán Stefánsson til vara. Kosning í orlofsnefnd, Helga Árnadóttir, Karl Halldórsson og Sveinn Hreinsson. Ferðanefnd, Jóhanna Björnsdóttir, Margrét Schiöth og Frímann Sveinsson. Starfskjaranefnd, Stefán Stefánsson, Hjálmar Hjálmarsson og Sigmundur Þorgrímsson til vara. Starfsmenntasjóður, Guðrún Guðbjartsdóttir, Stefán Stefánsson og Óskar Óli Jónsson til vara.

Undir liðnum, önnur mál, var borin upp tillaga sem var samþykkt um að styrkja Slysavarnardeild kvenna um 150.000,-  en félagið hefur á undanförnum árum styrkt gott málefni hér í bænum í aðdraganda jóla.  Tekin var ákvörðun um að félagsmenn mundu fá að vita með sex vikna fyrirvara staðfestingu í leigu íbúðar í Sólheimum 23. Einnig var lesið upp á fundinum bréf sem barst stjórn félagsins frá félagsmanni STH og varðar skipulag aðalfundarins.

Anna Ragnars og Ása Gísladóttir voru ánægðar á fundinum á föstudag.

Félagarnir á bæjarskrifstofunni, Kristbjörn og Guðmundur eru hér að fá sér á diskana en aðalfundargestum Starfsmannafélagsins var boðið upp á jólahlaðborð.

Deila á