Atvinnumál og íbúðakaup til umræðu

Stjórn Þingiðnar kom saman til fundar í gær. Stjórnarmenn voru almennt á því að atvinnuástandið meðal iðnaðarmanna væri þokkalegt á félagssvæðinu um þessar mundir. Verkefnastaðan væri þó mjög mismunandi milli fyrirtækja, frekar lítið væri um stór verkefni s.s. húsbyggingar. Fram kom óánægja með stöðu uppbyggingar á orkufrekum iðnaði á svæðinu eftir að Alcoa gaf út að þeir væru hættir að horfa til Húsavíkur varðandi uppbyggingu á álveri. Í dag ríkti því töluverð óvissa um framhaldið. Þá urðu umræður um fund sem haldinn var nýlega á Húsavík um atvinnumál þar sem iðnaðarráðherra og forstjóri Landsvirkjunar voru meðal frummælenda um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Lítið kom út úr fundinum að mati stjórnarmanna.

Til skoðunar er að selja íbúðir Framsýnar og Þingiðnar á Freyjugötunni í Reykjavík. Um er að ræða fjórar íbúðir og kaupa þess í stað fjórar nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.  Stjórnarmenn voru á því að komin væri tími til að skipta út íbúðunum á Freyjugötu fyrir nýjar. Þingiðn á 0,25% eignarhlut í einni íbúðinni á Freyjugötu. Samþykkt var að fela formanni félagsins að skoða málið frekar í samstarfi við Framsýn.

Formaður félagsins fór á formannafund ASÍ sem haldinn var í Reykjavík fyrir nokkru. Hann gerði stjórnarmönnum grein fyrir helstu málefnum  fundarins og samtölum sem hann  átti eftir fundinn við forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttir, sem var frummælandi á fundinum.

Stjórnin samþykkti að fara að tillögum sameiginlegar orlofsnefndar stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og bjóða upp á sambærilega orlofskosti sumarið 2012 og var 2011. Áætlað er að heildarkostnaður við niðurgreiðslur á orlofshúsum  til félagsmanna stéttarfélaganna hafi í heildina verið um 6. milljónir á síðasta ári.

Lionsklúbbur Húsavíkur í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga vinnur að því að koma af stað metnaðarfullu forvarnarstarfi er miðar að því, að kalla alla þá sem verða 55 ára á hverju ári í fimm ár í krabbameinsskoðun, það er ristilspeglun.  Um er að ræða 5 ára verkefni. Verkefnið er kostnaðarsamt og því leitar Lionsklúbburinn eftir samstarfi við félagasamtök, fyrirtæki og fjármálastofnanir til að fjármagna forvarnarverkefnið. Beðið er um kr. 200.000,- frá stéttarfélögunum. Stjórn Þingiðnar samþykkti að vera með og greiða kr. 50.000,- á ári í 5 ár samtals kr. 250.000,-. Stjórnarmenn voru sammála um mikilvægi verkefnisins og lýstu  yfir ánægju sinni með það.

Ákveðið var að taka upp nýja reglu og niðurgreiða krabbameinsskoðun þar er ristilskoðun og blöðruhalsskoðun hjá félagsmönnum um 50% af kostnaði, þó að hámarki kr. 15.000,- pr. skoðun. Reglan er eins og hjá Framsýn en félögin hafa leitast við að hafa sambærilegar reglugerðir fyrir sjúkrasjóði stéttarfélaganna.

Umræður urðu um Vaðlaheiðagöng en búið er að bjóða verkið út. Hins vegar liggur ekki endanlega fyrir hvort verður að framkvæmdum þar sem deilur hafa verið um framkvæmdina á þingi og í þjóðfélaginu. Stjórnarmenn voru sammála um að umræðan hefði verið á villigötum. Framkvæmdin væri mikilvæg fyrir atvinnulífið og íbúa Norðausturlands, ekki síst ef uppbygging orkufreks iðnaðar á Bakka verður að veruleika.  

Til stendur að auka skattbyrði á hluta séreignasparnaðar launþega gangi tillögur stjórnvalda eftir. Gert er ráð fyrir að sparnaður launþega umfram 2% verði tvískattaður. Stjórnarmenn lýstu yfir megnri óánægju með þessar hugmyndir og fordæmdu þær.

Þingiðn hefur borist þakkarbréf frá Styrktarfélagi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga.  Þingiðn tók þátt í að kaupa maga- og ristilspeglunartæki fyrir stofnunina sem var vígt formlega 30. október sl.

Deila á