Kjördæmapot og hamingja

Töluvert hefur verið um að félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafi sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og lýst yfir andúð sinni á umræðu og málefnafátækt þeirra manna sem tjáð hafa sig opinberlega  gegn uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka við Húsavík og framkvæmdum þeim tengdum sbr. Vaðlaheiðagöngum.

Skorað hefur verið á Framsýn að álykta um málið. Óskir félagsmanna verða teknar fyrir á næsta stjórnarfundi sem boðað hefur verið til síðar í þessum mánuði. Þess ber þó að geta að Framsýn ályktaði fyrr á þessu ári um mikilvægi Vaðlaheiðagangna fyrir atvinnusvæðið. Þá liggur fyrir að ein af forsendum þess að orkufrekur iðnaður rísi á Bakka er að grunnsamgöngur á svæðinu verði lagaðar frá því sem nú er. Með tilkomu stórra atvinnuuppbyggingaverkefna í Þingeyjarsýslum er ljóst að göngin munu borga sig upp á stuttum tíma enda verða þau fjármögnuð með vegtollum. Þá vita allir sem búa hér Norðanlands hvers konar farartálmi Víkurskarðið er yfir vetrarmánuðina. Þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi á sléttlendinu við Faxaflóann þar sem stutt  er í flesta þjónustu s.s. læknisþjónustu á hátæknisjúkrahúsum.

Fáfræði manna um öryggismál, aðstæður og þann fjölda bifreiða sem fara að meðaltali yfir skarðið daglega er mikil. Þeir blása út fáfræðinni af miklum eldmóð í stað þess að draga andann og kynna sér málið. Hugsanlega hentar það ekki öllum! Þá yrði það góð kjarabót fyrir launþega að fá 16 km styttingu á hringveginn, það virðist Félag íslenskra bifreiðaeigenda ekki skilja sem tekið hefur sér stöðu gegn þessari framkvæmd.

Úrtölumennirnir eru víða, þeir hafa ekki skilning á atvinnuuppbyggingu og samgöngumálum á landsbyggðinni. Til dæmis töluðu þingmenn um að það væri hamingja fyrir Þingeyinga að fá ekki álver á Bakka. Þessir sömu menn taka daglegar ákvarðarnir um að skera niður opinberra þjónustu og framkvæmdir um land allt.  Er þessum mönnum treystandi til að standa vörð um velferð fólks og að stjórna fjármálum landsins, NEI!  Forsenda fyrir viðsnúningi er öflugt atvinnulíf og viðunandi samgöngur.  

Hvers vegna leggjast menn svo lágt að tala um kjördæmapot ef framkvæmdir eru utan 100 km radíus frá Höfuðborgarsvæðinu? Töluðu þessir sömu menn um kjördæmapot þegar tónlistarhúsið Harpan var byggð sem er ein stærsta ef ekki stærsta byggðaaðgerð Íslandssögunnar sem þegar hefur fengið marga milljarða afskrifaða? Töluðu þessir menn um kjördæmapot þegar ráðist var í tvöföldun á Reykjanesbrautinni, Suðurlandsvegi og lagfæringum á Vesturlandsvegi? Töluðu þessir menn um kjördæmapot þegar ráðist var í Hvalfjarðargöngin? Þetta kallast greinilega ekki kjördæmapot að þeirra mati enda innan ákveðins ramma.

Við getum haldið áfram að taka dæmi. Getur það verið að það sé kjördæmapot að flestir vegir og slóðar á höfuðborgarsvæðinu séu með bundnu slitlagi meðan Vestfirðingar og fólk á Norðausturlandi býr enn þann daginn í dag við hættulega malarvegi? Þetta er væntanlega ekki kjördæmapot.

Tala menn um kjördæmapot, nú þegar tillögur stjórnvalda ganga út á að skattleggja sérstaklega atvinnurekstur á landsbyggðinni til að mæta hruninu? Tillögur eru uppi um að skattleggja útgerðir sérstaklega um allt að 8. milljarða en starfsemi þeirra er að mestu á landsbyggðinni.

Sem sagt, landsbyggðinni sem hélt sér til hliðar á svokölluðum “góðæristímum” er ætlað  að greiða víxilinn af fjárfestingarruglinu með sérstökum landsbyggðarskatti. Þar eru breiðu bökin. Samkvæmt umræðunni mætti hins vegar ætla að íbúar landsbyggðarinnar þyrftu á ölmusu að halda, en því fer víðs fjarri.

Menn eru tilbúnir að blóðmjólka landsbyggðina en hafa ekki skilning á því að atvinnulífið á landsbyggðinni þarf fóður til að skila afurðum í formi gjaldeyristekna fyrir íbúana við flóann þar sem Ingólfur Arnarson nam land á sínum tíma.

Er ekki komin tími til þess að menn kynni sér hvaðan tekjur þjóðarinnar koma og íbúum landsbyggðarinnar verði tryggt eðlilegt afgjald af gjaldeyristekjum til að standa straum á kostnaði við atvinnuuppbygginu og samgöngur á landsbyggðinni.  Fellur það undir kjördæmapot?

Deila á