Lionsklúbbur Húsavíkur í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hefur áhuga á að setja af stað forvarnarstarf vegna ristilkrabbameins. Unnið hefur verið að verkefninu undanfarna mánuði. Hugmyndin er að bjóða öllum íbúum á svæði HÞ fæddum 1957 (55 ára) ókeypis ristilspeglun, sem framkvæmd verður af meltingarsérfræðingi á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Ristilkrabbamein hefur lagt marga þegna þessa lands að velli á undanförnum árum. Ætlunin með verkefninu er að sporna við frekari veikindum, þá er tilganginum náð.
Þar sem verkefnið er mjög dýrt hefur Lionsklúbbur Húsavíkur ákveðið að leita til nærsamfélagsins eftir stuðningi við forvarnarstarfið.
Verkefnið er hugsað þannig, að næstu 5 árin verði 55 ára einstaklingum boðið uppá ristilskoðun. Á hverju ári verður gerð grein fyrir stöðu verkefnisins, þannig að allir geti fylgst með gangi mála. Lionsklúbbur Húsavíkur hefur leitað til sveitarfélaga, stéttarfélaga, fyrirtækja, bankaútibúa og sparisjóðs SÞ. Undirtektir hafa verið mjög góðar. Þess má geta að stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa samþykkt að leggja þessu mikilvæga verkefni eina milljón. Félögin eru, Framsýn, Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar.