Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar hafa samþykkt að leita skýringa hjá Iðnaðarráðherra á ummælum sem fallið hafa um uppbyggingu á orkufrekum iðnaði við Húsavík. Jafnframt er óskað skýringa á þýðingu setningar í viljayfirlýsingu ríkistjórnarinnar og sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum sem stjórnvöld virðast ekki ætla að fara eftir sbr. boðaðan niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Setningin er svohljóðandi: „ Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu, sem nauðsynleg er þegar til uppbyggingar kemur.“ Bréfið til ráðherra er svohljóðandi:
Iðnaðarráðherra
Katrín Júlíusdóttir
Arnarhváli
150 Reykjavík
Húsavík 2. nóvember 2011
Varðar atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum
Þingeyingar hafa lengi unnið að því efla atvinnulífið í Þingeyjarsýslum í góðu samstarfi við öfluga fjárfesta sem hafa verið tilbúnir að fjárfesta á landsbyggðinni. Dæmi um slíkt eru hugmyndir Alcoa um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Að því verkefni hefur verið unnið um árabil og hefur umtalsvert fjármagn verið sett í undirbúningsvinnu. Ljóst er að heimamenn hafa bundið miklar vonir við að hugmyndir Alcoa um orkufrekan iðnað næðu fram að ganga og að sú mikla orka, sem er til staðar í Þingeyjarsýslum, verði notuð til atvinnuuppbyggingar í héraðinu. Viljayfirlýsingar þess efnis milli samstarfsaðila, ríkis, sveitarfélaga og Landsvirkjunar hafa verið undirritaðar. Nú ber svo við að Alcoa hefur gefið út að þeir séu hættir við verkefnið og hafa tilgreint ástæðurnar sem þar liggja að baki. Ástæðulaust er því að tíunda þær hér frekar þar sem fjallað hefur verið ítarlega um þær í fjölmiðlum. Heimamenn eru því aftur á byrjunarreit og ekkert verkefni fast í hendi.
Ljóst er að ákvörðun Aloca um að hætta við verkefnið er mikið áfall fyrir samfélagið í víðum skilningi. Ekki síst fyrir áhrifasvæði álversins í Þingeyjarsýslum og við Eyjafjörð. Þá hefði jafnframt orðið til fjöldi starfa á höfuðborgarsvæðinu tengt álversuppbyggingunni og rekstri álversins á Bakka. Tilkoma álversins hefði einnig skapað töluverðar gjaldeyristekjur og jákvæðan hagvöxt sem íslensku efnahagslífi veitir ekki af um þessar mundir.
Full ástæða er til að gagnrýna stjórnvöld fyrir það hvernig þau hafa haldið á málum og án mikilla erfiðleika væri hægt að skrifa heila skýrslu um afskipti og yfirlýsingar ákveðinna þingmanna og ráðherra um málið sem oftar en ekki hafa talað í kross og unnið þannig gegn verkefninu. Þá er með ólíkindum að þingmenn skuli leyfa sér á Alþingi Íslendinga að óska Þingeyingum til hamingju með að Alcoa hafi formlega hætt við uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á Bakka. Þar sitja þessir menn áhyggjulausir meðan byggðum landsins blæðir út, sé tekið mið af fögnuði og ummælum þeirra varðandi uppbygginguna á Bakka.
Dæmi um undarleg vinnubrögð, vísast í viljayfirlýsingu ríkistjórnar Íslands og sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum um uppbyggingu atvinnulífs í sýslunum, sem undirrituð var 25. maí 2011. Þar stendur orðrétt; „Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til umfangsmikillar atvinnuuppbyggingar og eflingar byggðar á svæðinu. Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu, sem nauðsynleg er þegar til uppbyggingar kemur.“ Undir þessa viljayfirlýsingu fh. ríkistjórnarinnar, skrifar Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Um leið og Framsýn gagnrýnir stöðu mála varðandi uppbyggingu á orkufrekum iðnaði í Þingeyjarsýslum krefur félagið iðnaðarráðherra um skýringar á orðalaginu í viljayfirlýsingunni. Það er í ljósi tillögu Fjárlaganefndar sem gengur út á að lama starfsemi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga með því að skerða fjárframlög til stofnunarinnar um 71,6 milljónir á árinu 2012. Öflug heilbrigðisþjónusta á svæðinu er ein af megin forsendum þess að öflugt atvinnulíf og byggð þrífist í Þingeyjarsýslum svo hægt verði að byggja upp öfluga atvinnustarfsemi á komandi árum.
Hvað þýða þessi skilaboð í viljayfirlýsingunni og hvenær má að mati ráðherrans reikna með stórfelldri atvinnuuppbyggingu í héraðinu sem byggir á nýtingu þeirrar orku sem er til staðar í Þingeyjarsýslum?
Þess er óskað að erindi þessu verði svarað fljótlega. Óskað er eftir skriflegu svari.
Virðingarfyllst!
Fh. Framsýnar- stéttarfélags
_______________________________
Aðalsteinn Á. Baldursson