Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er það boðað að þrengja á að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda í séreignarlífeyrissjóði á árinu 2012. Í rúman áratug hefur launafólk getað lagt allt að 4% af launum sínum í séreignarlífeyrissparnað án þess að greiða tekjuskatt af þeirri inngreiðslu. Nú er boðað að þetta hlutfall eigi að lækka um helming. Verkalýðshreyfingin hefur mótmælt þessum fyrirætlunum stjórnvalda og talið þau vanhugsuð.
Verði þessi áform ríkisstjórnarinnar að veruleika er mikilvægt að launafólk hætti að leggja í séreignarsparnað umfram 2% af launum. Fyrir liggur að sá hluti sem er umfram 2% lendir að mestu í eignaupptöku stjórnvalda þar sem bæði inn- og útgreiðsla sparnaðarins verður skattlögð. Afleiðingar tvísköttunarinnar eru þær að milli 60 og 70% af höfuðstól sparnaðarins greiðist í skatt. Þá er ótalið að vextir af sparnaðinum verða skattlagðir eins og launatekjur en ekki eins og fjármagnstekjur.
Alþingi hefur enn ekki afgreitt nauðsynlegar lagabreytingar til þess að stjórnin geti hrint þessum áformum sínum í framkvæmd. Framvinda málsins mun skýrast í nóvember og desember. Mikilvægt er að launafólk fylgist með framvindu málsins og geri breytingar á séreignarsparnaði sínum ef málið verður keyrt í gegnum þingið.