Breyting á skattlagningu sparnaðar inngrip í kjarasamninga

Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum er aðili að Samiðn, sambandi iðnfélaga. Miðstjórn sambandsins samþykkti í gær að senda frá sér svohljóðandi ályktun um skattlagningu á  séreignarsparnað en sambandið telur einhliða breytingu á skattlagningu séreignarsparnaðar alvarleg inngrip inn í frjálsa kjarasamninga:

„Miðstjórn Samiðnar lýsir mikilli andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar um einhliða breytingu á skattlagningu séreignarsparnaðar sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. 

Fyrirkomulag skattlagningar á séreignarsparnaði var og er hluti af samkomulagi milli stjórnvalda og stéttarfélaga og er því hluti af kjarasamningum.  Einhliða ákvörðun stjórnvalda um breytingar á því samkomulagi er mjög alvarlegt inngrip í frjálsa kjarasamninga.

Við þær fjárhagslegu aðstæður sem íslenskt þjóðfélag býr við nú, er mikilvægt að hvetja almenning til sparnaðar og leggja fyrir til elliáranna.  Miðstjórnin krefst þess að ríkisstjórnin dragi til baka allar hugmyndir um breytingar á skattlagningu séreignarsparnaðar og hugmyndir um frekari skattlagningu á lífeyrissjóði.  Jafnframt vill miðstjórn Samiðnar minna á yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um jöfnun lífeyrisréttinda sem fylgdu síðustu kjarasamningum en lítið hefur farið fyrir tillögum þar um.“

Deila á