Sigurður Daði Sigfússon vann sigur á Framsýnarskákmótinu sem fram fór á Húsavík um helgina. Mótinu lauk í gær en það voru Skákfélagið Goðinn í Þingeyjarsýslu og Framsýn- stéttarfélag Framsýn sem stóðu að mótinu. Alls tóku átján skákmenn þátt í ár og sem fyrr segir varð Sigurður Daði efstur á mótinu. Hann fékk 6,5 vinninga af 7 mögulegum en Sigurður Daði leiddi mótið frá upphafi. Einar Hjalti Jensson varð í öðru sæti með 6 vinninga og Smári Sigurðsson varð í 3. sæti með 4,5 vinninga. Ungur og efnilegur skákmaður frá Akureyri, Jón Kristinn Þorgeirsson, varð í 4. sæti með 4,5 vinninga, en aðeins lægri á stigum heldur en Smári. Jón Kristinn varð efstur utanfélagsmanna og fékk eignarbikar að launum.
Tveir þekktir prestar tókust á í skákmótinu. Sighvatur Karlsson frá Húsavík og Sigurður Ægisson frá Siglufirði. Prestaslagurinn mikli. Eftirfarandi vísa var samin af Sigurði Ægissyni snemma í skákinni:
Sitja og þenkja sérar tveir
og sálin í fordæming herðist
biskupa drápu báðir þeir
og brostu á meðan það gerðist
Sigurvegarar í Framsýnarmótinu í skák ásamt formanni Framsýnar sem afhendi verðlaunin.